Snýr aftur á heimaslóðir

Arnór Gauti Ragnarsson leikur í 1. deildinni á komandi keppnistímabili.
Arnór Gauti Ragnarsson leikur í 1. deildinni á komandi keppnistímabili. Ljósmynd/Afturelding

Knattspyrnumaðurinn Arnór Gauti Ragnarsson er genginn til liðs við uppeldisfélag sitt Aftureldingu á nýjan leik.

Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í kvöld en Arnór Gauti kemur til félagsins frá Fylki og skrifar undir lánssamning í Mosfellsbænum sem gildir út tímabilið.

Sóknarmaðurinn, sem er 24 ára gamall, hefur einnig leikið með Breiðabliki, Selfossi og ÍBV á ferlinum en hann á að baki 68 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað sjö mörk.

Það hefur verið uppgangur hjá Aftureldingu síðustu ár. Það er margt nýtt og mjög spennandi tímar fram undan. Liðið spilar virkilega skemmtilegan fótbolta og ég held að ég eigi eftir að smellpassa inn í þetta,“ sagði Arnór Gauti eftir að hafa skrifað undir hjá Aftureldingu.

Afturelding hafnaði í áttunda sæti 1. deildarinnar, Lengjudeildarinnar, á síðustu leiktíð en fyrsti leikur liðsins á komandi keppnistímabili verður gegn Kórdrengjum á Varmá hinn 7. maí næstkomandi.

mbl.is