Nýr þriggja ára samningur við Stjörnuna

Hilmar Árni Halldórsson í leik með Stjörnunni gegn Fylki síðasta …
Hilmar Árni Halldórsson í leik með Stjörnunni gegn Fylki síðasta sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hilmar Árni Halldórsson hefur skrifað undir nýjan samning við knattspyrnudeild Stjörnunnar úr Garðabæ til þriggja ára.

Hilmar kom til Stjörnunnar frá uppeldisfélagi sínu Leikni í Reykjavík fyrir  tímabilið 2016 en hann hafði tekið drjúgan þátt í að koma Leiknismönnum upp í efstu deild í fyrsta sinn í sögunni og lék með þeim þar tímabilið 2015.

Frá 2016 hefur Hilmar Árni sett mikinn svip á lið Stjörnunnar. Hann er orðinn næstmarkahæsti leikmaður félagsins í efstu deild frá upphafi með 53 mörk í 103 leikjum en áður skoraði hann fjögur mörk í 22 leikjum Leiknis í deildinni árið 2015. Hann hefur leikið síðustu 98 leiki Stjörnunnar í deildinni og ekki misst úr leik frá árinu 2016.

Þá hefur Hilmar lagt upp mikið af mörkum fyrir Garðabæjarliðið og hefur verið í fremstu röð á því sviði í deildinni undanfarin ár. Hilmar á að baki fjóra A-landsleiki.

mbl.is