12. sæti: „Við höfum engu að tapa“

Dagur Austmann Hilmarsson.
Dagur Austmann Hilmarsson. mbl.is/Íris

Samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is enda nýliðar Leiknis úr Reykjavík í 12. og síðasta sæti úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á komandi keppnistímabili.

Fimmtán íþróttafréttamenn og leiklýsendur spáðu fyrir um lokaröð liðanna og flestir gerðu ráð fyrir því að Leiknismenn yrðu í öðru tveggja neðstu sætanna þegar upp verður staðið í haust.

Leiknismenn eru nýliðar í deildinni eftir að hafa endað í 2. sæti 1. deildar á síðasta tímabili. Þeir hafa einu sinni áður leikið í efstu deild en það var árið 2015.

Dagur Austmann Hilmarsson, 22 ára varnarmaður Leiknis, segir spána ekkert koma á óvart en leikmenn liðsins muni ekki láta hana á sig fá.

„Eins og með allar aðrar spár þá kemur þetta engum á óvart. Þetta er bara flott sko, ég hef enga skoðun á þessum spám,“ segir Dagur í samtali við mbl.is.

Hann segir enda stöðuna á leikmannahópnum mjög góða og að undirbúningstímabilið hafi sömuleiðis gengið afar vel.

„Að mínu mati hefur það gengið mjög vel. Það hafa verið nokkur meiðsli hér og þar inn á milli en annars fyrir utan þessa Covid-pásu þá var þetta mjög gott undirbúningstímabil.“

Nú skömmu fyrir mót segir Dagur þó lítil sem engin meiðsli í leikmannahópnum. „Nei ekkert alvarlegt, þetta voru bara lítil meiðsli sem menn urðu fyrir á æfingum og voru frá í smá tíma en þeir eru allir heilir núna og ættu að vera klárir í slaginn fyrir fyrsta leik.“

Hverjir eru helstu styrkleikar Leiknis?

„Við erum náttúrulega með frábæra liðsheild og erum flestir búnir að spila lengi saman. Við erum með ungt lið þannig að við komum graðir inn í þetta mót og höfum engu að tapa. Það spá okkur allir fallsæti. Við bara gerum okkar besta og ætlum að koma einhverjum á óvart,“ segir hann.

Dagur segist að lokum hlakka mikið til að hefja leik í Pepsi Max-deildinni og að hann, líkt og liðsfélagar hans, séu bjartsýnir á gott gengi.

„Það er Stjarnan í fyrsta leik og Breiðablik í öðrum. Ég tel möguleika okkar góða. Þetta verður bara ótrúlega spennandi og skemmtilegt sumar. Eins og ég segi höfum við engu að tapa og við teljum möguleikana nokkuð góða. Ég er mjög bjartsýnn á þetta mót.“

LEIKNIR R.

Þjálfari: Sigurður Heiðar Höskuldsson.
Árangur 2020: 2. sæti 1. deildar.

Komnir:
Octavio Páez frá Istra (Króatíu)
Andrés Manga Escobar frá Cúcuta Deportivo (Kólumbíu)
Emil Berger frá Dalkurd (Svíþjóð)
Loftur Páll Eiríksson frá Þór
Viktor Marel Kjærnested frá Ægi (úr láni)

Farnir:
Vuk Oskar Dimitrijevic í FH

Fimm fyrstu leikir Leiknis:
1.5. Stjarnan - Leiknir R.
8.5. Leiknir R. - Breiðablik
12.5. KA - Leiknir R.
16.5. Leiknir R. - Fylkir
21.5. Valur - Leiknir R.

Leikir Leiknis í Lengjubikarnum í vetur:
Leiknir R. - Breiðablik 0:4
Leiknir R. - ÍBV 4:1
Leiknir R. - Fjölnir 3:4
Leiknir R. - Fylkir 1:0
Leiknir R. - Þróttur R. 5:2
Flest mörk: Sævar Atli Magnússon 8.

Nánar verður fjallað um lið Leiknis í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert