Ágætur grunnur til að byggja á

Birkir Valur Jónsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson í leiknum í …
Birkir Valur Jónsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson í leiknum í dag. Mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Birkir Valur Jónsson hægri bakvörður HK sagði eftir markalausa jafnteflið gegn KA í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar í fótbolta, Pepsi Max-deildarinnar, í Kórnum í dag að stigið og leikurinn í dag væru ágætur grunnur fyrir liðið að byggja á.

„Þetta var barningur framan af leiknum og jafnræði í fyrri hálfleiknum þar sem bæði lið héldu ágætlega í boltann. Í seinni hálfleiknum ýttu þeir okkur aftar á völlinn en við leystum það vel. Við vorum góðir í okkar svæðum en hefðum þurft að nýta okkur betur þegar við unnum boltann,“ sagði Birkir Valur við mbl.is eftir leikinn.

KA setti oft talsverða pressu á HK-liðið og Birkir tók undir að það hefði verið erfitt á köflum. „En okkur líður vel í okkar uppstillingu þegar við liggjum aftarlega á vellinum og það höfum margoft sýnt. En vissulega var þetta fulllangur kafli í seinni hálfleiknum þar sem við komumst ekkert áleiðs.“

Birkir var sjálfur í lykilhlutverki í sóknarleik HK en bestu sóknir liðsins komu eftir spretti hans upp hægri kantinn og fyrirgjafir.

„Ég komst í ágætisstöður í fyrri hálfleiknum en okkur vantaði að tengja betur sendingarnar og hlaupin til að þetta skilaði árangri. En stigið sem við fengum í dag er alla vega ágætur grunnur fyrir okkur að byggja á,“ sagði Birkir.

Spurður um markmið liðsins sagði Birkir að það væri ekkert fastmótað. „Við ætlum einfaldlega að gera betur en undanfarin tvö ár þar sem við höfum endað í níunda sæti. Við teljum okkur vera með hóp sem geti gert betur en það. Markmiðið er fyrst og fremst að stíga næsta skref.“

Birkir Valur fór á miðju síðasta tímabili til Slóvakíu og lék sem lánsmaður með Spartak Trnava í úrvalsdeildinni þar til áramóta. Hann kvaðst ánægður með það í heild sinni.

„Já, þetta var bara frábær reynsla fyrir mig. Ég fékk reyndar ekki að spila eins mikið og ég hefði viljað. Þjálfarinn sem sótti mig var rekinn, en svo fékk ég tækifærið, sem ég náði ekki að nýta nógu vel. En ég hugsaði bara að ég ætlaði að fá eins mikið út úr þessu og ég gæti sjálfur. Vonandi skilar það sér í sumar,“ sagði Birkir Valur Jónsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert