Eins og beljur á vorin

Matthías Vilhjálmsson þekkir vel til hjá FH.
Matthías Vilhjálmsson þekkir vel til hjá FH. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég er búinn að bíða lengi eftir þessu og þetta var geggjað,“ sagði Matthías Vilhjálmsson fyrirliði FH eftir 2:0 sigur á Fylki í Árbænum í kvöld þegar leikið var í fyrstu umferð efstu deildar karla í fótbolta, Pepsi-Max-deildinni.

„Mér fannst þetta nokkuð jafnt til að byrja með en svo fáum við vítið. Við vorum meira með boltann en vorum ekki að skapa neitt mikið af færum og svo þegar Fylkismenn fá rauða spjaldið varð þetta erfitt fyrir þá en þeir eru með gott lið og eiga eftir að bíta frá sér í sumar. Við ræddum í hálfleik að það væri hættulegt að reyna verja forystuna og ætluðum að reyna að ná strax í mark, það tókst og þá var bara að sigla þessu heim.“

Matthías er kominn til FH aftur eftir tíu ár erlendis. „Við þekkjum þennan langa undirbúning fyrir mót á Íslandi og seinustu daga þegar öll umfjöllunin byrjaði kom þvílíkur fiðringur í magann, langt síðan ég hef upplifað það. Nú er ég kominn í heimahagana að spila með vinunum, sem er frábært og frábært að byrja með sigri. Fyrsti leikur á Íslandsmóti er alltaf erfiður, allir eins og beljur á vori þegar viljinn er mikill en stundum þarf maður að vera yfirvegaður. Mér fannst við fagmannlegir og héldum hreinu, sem er jákvætt,“ bætti fyrirliðinn við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert