KR slökkti á Blikum fyrsta stundarfjórðunginn

Viktor Karl Einarsson og Stefán Árni Geirsson eigast við á …
Viktor Karl Einarsson og Stefán Árni Geirsson eigast við á Kópavogsvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

KR gerði frábæra ferð í Kópavoginn þegar liðið vann sterkan 2:0 útisigur gegn Breiðablik í stórleik fyrstu umferðar úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld. Bæði mörk KR komu á fyrsta stundarfjórðung leiksins.

KR-ingar mættu talsvert ákveðnari til leiks og settu strax pressu á Blika. Eftir aðeins fimm mínútur höfðu þeir fengið þrjár hornspyrnur sem þeir náðu þó ekki að gera sér mat úr.

Á 11. mínútu tóku þeir svo forystuna. Hinn síungi Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR-inga, fékk þá boltann frá Stefáni Árna Geirssyni á hægri kantinum, hann „köttaði“ inn í átt að D-boganum, þrumaði að marki og boltinn söng í nærhorninu, 1:0.

Óskar Örn hefur nú skorað í efstu deild karla í 18 tímabil í röð.

Aðeins fjórum mínútum síðar tvöfaldaði KR forskot sitt. Kennie Chopart sá þá Anton Ara Einarsson í marki Blika eitthvað skringilega staðsettan og þrumaði boltanum langt utan af hægri kanti með jörðinni og boltinn endaði í nærhorninu, 2:0.

Örskömmu síðar mátti litlu muna að KR-ingar kæmust í 3:0. Blikar misstu þá boltann á hættulegum stað, Anton Ari var langt úti á velli, Óskar Örn reyndi skot af löngu færi í autt markið en skotið framhjá markinu.

Á 23. mínútu vildu Blikar fá vítaspyrnu þegar Jason Daði Svanþórsson skaut boltanum að því er virtist í hönd Arnórs Sveins Aðalsteinssonar en ekkert var dæmt.

KR-ingar voru áfram hættulegri og velgdu viðkvæmri vörn Blika ítrekað undir uggum, án þess þó að ná að bæta við.

Á sama tíma voru Blikar hugmyndasnauðir í sóknarleik sínum og sá góð vörn KR við öllu sem þeir reyndu.

Staðan 2:0 í hálfleik, KR í vil, og var sú staða fyllilega sanngjörn.

Blikar mættu hins vegar áræðnari til leiks í síðari hálfleiknum og fékk Gísli Eyjólfsson dauðafæri á 49. mínútu þegar hann skaut framhjá úr úrvalsfæri í teignum eftir laglegan undirbúning Höskuldar Gunnlaugssonar.

Þrátt fyrir aukna pressu þar sem Blikarnir fundu oftar glufur á vörn KR stóð hún þó áfram sína plikt með sóma og KR sigldi að lokum sterkum 2:0 sigri í höfn.

KR tyllir sér þar með í 1. – 3. sæti Pepsi Max-deildarinnar eftir fyrstu umferðina þar sem liðið er ásamt Val og FH, sem einnig unnu sína leiki 2:0.

KR vann alla þrjá leiki liðanna á síðasta tímabili, báða í deildinni og einn í Mjólkurbikarnum, og er því áfram með gott tangarhald á Blikum.

Breiðablik 0:2 KR opna loka
95. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með sterkum sigri gestanna í KR.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert