Breiðablik: Tapa mest á að missa Steina

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir og Hafrún Rakel Halldórsdóttir eru samherjar hjá …
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir og Hafrún Rakel Halldórsdóttir eru samherjar hjá Breiðabliki í ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsmeistarar Breiðabliks hefja titilvörnina á heimavelli sínum, Kópavogsvelli, í kvöld klukkan 19.15 en þá taka þær á móti Fylki í fyrstu umferð Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta.

Breiðablik teflir fram mjög breyttu liði frá síðasta tímabili. Landsliðskonurnar ungu Sveindís Jane Jónsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir eru allar farnar í atvinnumennsku, Rakel Hönnudóttir er í barnsburðarleyfi, þótt hún sé áfram í leikmannahópnum, og markvörðurinn og fyrirliðinn Sonný Lára Þráinsdóttir er hætt.

Í staðinn eru tveir lykilmanna Selfyssinga komnir í Kópavoginn, framherjinn Tiffany McCarty og tengiliðurinn Karítas Tómasdóttir, og þá eru Selma Sól Magnúsdóttir og Fjolla Shala í hópnum á ný eftir að hafa misst af síðasta tímabili vegna meiðsla. Eins er Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir komin á fullt eftir að hafa misst mikið úr á árinu 2020.

Vilhjálmur Kári Haraldsson tók við þjálfun Breiðabliks í vetur eftir að hinn sigursæli Þorsteinn Halldórsson tók við íslenska landsliðinu. Vilhjálmur þjálfaði varalið Blika, Augnablik, í 1. deildinni í fyrra.

Karitas Tómasdóttir sem lék sína fyrstu landsleiki á dögunum kom …
Karitas Tómasdóttir sem lék sína fyrstu landsleiki á dögunum kom til Breiðabliks frá Selfossi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Harpa Þorsteinsdóttir segir um Breiðablik:

„Breiðablik verður í öðru af efstu tveimur sætunum. Blikarnir misstu náttúrlega stór nöfn fram á við. Nálægt 80 prósent af mörkunum sem þær skoruðu fóru í gegnum þessa leikmenn en ég held að það sem Blikarnir tapa meira á er að missa Steina [Þorstein Halldórsson].

Ég held að það verði dýrt fyrir Breiðablik að hafa misst Steina af því að það hefur einhvern veginn ekkert skipt neinu máli hvaða leikmenn detta út og inn hjá þeim. Það hefur bara alltaf verið sami boltinn nánast og alltaf virkað. Ég held að það sé svolítil áskorun fyrir Villa [Vilhjálm Kára Haraldsson] að koma inn í það.

Ef maður horfir á hópinn hjá Breiðabliki misstu þær sterka leikmenn og fá unga og efnilega í staðinn. Blikarnir gerðu góð kaup.“

BREIÐABLIK
Þjálfari: Vilhjálmur Kári Haraldsson.
Árangur 2020: Íslandsmeistari.

Komnar:
Tiffany McCarty frá Selfossi
Karitas Tómasdóttir frá Selfossi
Birta Georgsdóttir frá FH
Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir frá Keflavík (úr láni)
Telma Ívarsdóttir frá FH (úr láni)
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir frá KR

Farnar:
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir í Augnablik
Íris Dögg Gunnarsdóttir í Þrótt R.
Esther Rós Arnarsdóttir í FH
Guðrún Gyða Haralz í Þrótt R.
Sólveig J. Larsen í Val (var í láni hjá Fylki)
Sveindís Jane Jónsdóttir í Keflavík (úr láni)
Alexandra Jóhannsdóttir í Eintracht Frankfurt (Þýskalandi)
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í Bayern München (Þýskalandi)
Sonný Lára Þráinsdóttir er hætt

Leikmannahópur Breiðabliks 2021:

MARKVERÐIR:
12 Telma Ívarsdóttir - 1999
26 Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir - 1996

VÖRN:
5 Hafrún Rakel Halldórsdóttir - 2002
8 Heiðdís Lillýjardóttir - 1996
13 Ásta Eir Árnadóttir - 1993
18 Kristín Dís Árnadóttir - 1999
20 Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir - 2001
24 Hildur Þóra Hákonardóttir - 2001

MIÐJA:
4 Bergþóra Sól Ásmundsdóttir - 2003
6 Þórhildur Þórhallsdóttir - 2003
9 Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir - 1993
11 Fjolla Shala - 1993
17 Karítas Tómasdóttir - 1995
21 Hildur Antonsdóttir - 1995
22 Rakel Hönnudóttir - 1988
23 Vigdís Edda Friðriksdóttir - 1999
27 Selma Sól Magnúsdóttir - 1998
29 Andrea Rán Hauksdóttir - 1996
31 Ísafold Þórhallsdóttir - 2002

SÓKN:
7 Agla María Albertsdóttir - 1999
16 Tiffany McCarty - 1990
19 Birta Georgsdóttir - 2002

Fimm fyrstu leikir Breiðabliks:
4.5. Breiðablik - Fylkir
10.5. ÍBV - Breiðablik
15.5. Breiðablik - Þór/KA
19.5. Breiðablik - Tindastóll
27.5. Valur - Breiðablik

mbl.is