Danny Guthrie í Fram

Danny Guthrie (t.h.) í leik með Newcastle United gegn Liverpool …
Danny Guthrie (t.h.) í leik með Newcastle United gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á sínum tíma. SCOTT HEPPELL

Knattspyrnudeild Fram hefur samið við leikmanninn Danny Guthrie og mun hann leika með liðinu á komandi tímabili. Guthrie er alinn upp hjá Manchester United og Liverpool, þar sem hann hóf atvinnumannsferil sinn, og á yfir 100 leiki að baki í ensku úrvalsdeildinni.

Guthrie, sem er 34 ára gamall, er mjög reyndur miðjumaður sem hefur ásamt því að leika yfir 100 leiki í ensku úrvalsdeildinni leikið 150 leiki í ensku B-deildinni.

Hann hóf atvinnumannsferil sinn með Liverpool og lék þrjá úrvalsdeildarleiki með liðinu en er sennilega þekktastur fyrir tíma sinn hjá Newcastle United og Reading. Hann hefur einnig leikið með Sunderland, Bolton Wanderers, Fulham og Blackburn Rovers á ferli sínum. Hann lék í Indónesíu um tveggja ára skeið en tvö undanfarin tímabil hefur hann leikið með Walsall í ensku D-deildinni.

Von er á Guthrie til landsins í vikunni þar sem hann fer í sóttkví og hefur svo æfingar með Fram.

„Ég er hæstánægður með að ganga til liðs við Fram, félag með stórkostlega sögu. Ég get ekki beðið eftir að koma til Íslands, hitta þjálfarann, liðsfélaga mína og leggja hart að mér að komast í gott form til þess að byrja að spila og vinna leiki,“ sagði Guthrie við undirskriftina.

mbl.is