Enskur úrvalsdeildarleikmaður til Þróttar í Vogum

Marc Wilson í baráttu við Paul Pogba í leik með …
Marc Wilson í baráttu við Paul Pogba í leik með Stoke gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Marc Wilson, fyrrverandi landsliðsmaður Írlands og leikmaður í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um árabil, er kominn til liðs við 2. deildarlið Þróttar í Vogum, leikur með því í sumar og verður í þjálfarateyminu.

Wilson er 33 ára gamall og lék með Portsmouth, Stoke, Bournemouth og WBA í úrvalsdeildinni frá 2008 til 2017, alls 181 leik, og þá lék hann með Yeovil, Luton, Sunderland og Bolton. Hann var síðast leikmaður Bolton í B-deildinni tímabilið 2018-2019. Wilson lék 25 A-landsleiki fyrir Írland á árunum 2011 til 2016.

Wilson var samherji Hermanns Hreiðarssonar, þjálfara Þróttar í Vogum, á sínum tíma en í tilkynningu frá félaginu segir að hann sé með þessu m.a. að afla sér þjálfararéttinda og verður með þeim Hermanni og Andy Pew í þjálfarateymi liðsins.

Þróttarar voru nærri því að vinna sér sæti í 1. deild í fyrsta skipti á síðasta tímabili. Þeir enduðu í 3. sæti 2. deildar sem er besti árangur félagsins frá upphafi.

mbl.is