Jón um komu Guthries: „Erfitt að sleppa þessu tækifæri“

Jón Sveinsson, þjálfari Fram.
Jón Sveinsson, þjálfari Fram. Ljósmynd/Fram

Jón Sveinsson, þjálfari karlaliðs Fram í knattspyrnu, segir það hafa verið erfitt að sleppa tækifærinu að semja við hinn margreynda enska miðjumann Danny Guthrie þegar það bauðst.

„Þetta mál kom óvænt upp á borð hjá okkur og þótti okkur þetta vera mjög spennandi kostur. Það var erfitt að sleppa þessu tækifæri og við vonumst til að hann, með sína reynslu og karakter, komi sterkur inn í öflugan hóp.

Ég efast ekki um að hann muni ýta mönnum upp á tærnar og vera góð viðbót við gott lið. Framtíðin mun leiða það í ljós,“ sagði Jón í tilkynningu frá Fram.

Ásgrímur Helgi Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Fram, sagði félagið hæstánægt með liðstyrkinn. „Við erum virkilega ánægð með þennan liðsauka sem við erum að fá fyrir sumarið. Danny kemur með mikla reynslu og atvinnumannahugsun inn í hópinn hjá okkur og mun ekki síst verða mikil fyrirmynd og kraftur inn í unglingastarf félagsins þar sem við munum líka njóta krafta hans.

Það er mikill hugur í leikmönnum, starfsliði og stuðningsmönnum og ber að þakka þeim fjölmörgu aðilum innan félagsins sem gerðu komu Dannys að veruleika.“

mbl.is