Meistararnir niðurlægðu Fylki á Kópavogsvelli

Hafrún Rakel Halldórsdóttir úr Breiðabliki sendir boltann fyrir mark Fylkis …
Hafrún Rakel Halldórsdóttir úr Breiðabliki sendir boltann fyrir mark Fylkis en Valgerður Ósk Valsdóttir reynir að stöðva hana. mbl.is/Árni Sæberg

Íslandsmeistarar Breiðabliks hófu titilvörn sína á Íslandsmótinu með 9:0-stórsigri gegn Fylki í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Kópavogsvelli í kvöld.

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir kom Breiðablik yfir á 28. mínútu og Tiffany McCarthy bætti við öðru marki Blika, þremur mínútum síðar.

Karitas Tómasdóttir kom Blikum í 3:0 með skalla eftir hornspyrnu á 43. mínútu og staðan því 3:0 í hálfleik.

Hafrún Rakel Halldórsdóttir skoraði fjórða mark Blika á 55. mínútu áður en Áslaug Munda bætti við öðru marki sínu og fimmta marki Blika á 65. mínútu.

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir skoraði sjötta mark Blika á 70. mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður áður en Birta Georgsdóttir skoraði tvívegis með stuttu millibili fyrir Breiðablik, á 78. mínútu og 83. mínútu.

Agla María Albertsdóttir kórónaði svo góðan leik sinn með níunda marki Blika á 87. mínútu og þar við sat.

Breiðablik fer með sigrinum í efsta sæti deildarinnar í 3 stig en Fylkiskonur eru á botni deildarinnar án stiga.

Eitt lið á vellinum

Blikar voru lengi í gang og Fylkiskonur gerðu virkilega vel í að pressa Íslandsmeistarana ofarlega á vellinum.

Áslaug Munda skoraði frábært mark um miðjan fyrri hálfleikinn og eftir að Blikar komust yfir virtist skrekkurinn vera kominn úr liðinu.

Þær settu mikla pressu á Fylkisliðið eftir þetta og þá leið þeim miklu betur með boltann en á fyrstu mínútum leiksins þegar staðan var marklaus.

Fylkisliðið var fínt fyrsta hálftímann eða svo en eftir að þær lentu undir virtiust leikmenn liðsins hafa litla sem enga trú á því að þær gætu lagt Íslandsmeistarana af velli.

Varnarlínan var eins óörugg og hún gat verið og liðið saknaði mikið þeirra Berglindar Rósar Ágústsdóttur og Cecilíu Ránar Rúnarsdóttur sem gengu til liðs við Örebro í Svíþjóð fyrir tímabilið.

Þá var Fylkisliðið að klikka á einföldum sendingum og þótt Blikar hafi unnið sannfærandi sigur þá fékk Kópavogsliðið allt of mörg mörk á silfurfati frá Fylkisliðinu.

Það er erfitt að ætla sér að dæma Íslandsmeistarana út frá þessum leik en þær mæta svo sannarlega sterkar til leiks.

Tiffany McCarthy kom mjög vel inn í framlínu Blika og Agla María og Áslaug Munda voru mjög öflugar á köntunum.

Á sama tíma var Fylkisliðið ekki í neinum takti mest allan leikinn, færslurnar hjá liðinu voru lélegar, og liðið var varðist aldrei sem ein heild.

Það stefnir allt í að Valur og Breiðablik muni berjast um Íslandsmeistaratitilinn í ár, líkt og undanfarin ár, en önnur lið virðist því miður vera nokkrum gæðaflokkum fyrir neðan þessi tvö lið.

Breiðablik 9:0 Fylkir opna loka
90. mín. +2 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert