Knattspyrnumaðurinn Danny Guthrie, nýr leikmaður Fram, segist afar spenntur að koma til Íslands og byrja að spila með liðinu. Hann kveðst elska að spila fótbolta og því gildi það einu í hvaða landi það er.
„Ég hef það mjög gott. Ég var að fá þær fréttir að niðurstaðan úr Covid-19 prófinu mínu var neikvæð þannig að ég mér er frjálst að ferðast og kemst vonandi til Íslands eins fljótt og mögulegt er.
Við erum að skoða flug, ég þurfti að bíða eftir niðurstöðunni og var bara að fá hana fyrir stuttu. Ég kem í fyrsta lagi á morgun,“ sagði Guthrie í viðtali í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun með Valtý Birni í dag.
En af hverju gengur þessi margreyndi miðjumaður, sem hefur leikið yfir 250 leiki samtals í efstu tveimur deildum Englands, til liðs við Fram, sem leikur í næst efstu deild Íslands?
„Einfalda svarið við því er að í flestum Evrópulöndum er leiktímabilinu að ljúka á meðan tímabilið er rétt að byrja á Íslandi. Næstu mánuði hefði ég ekki verið samningsbundinn neinu félagi. Fram hafði samband við mig og ég er mjög spenntur.
Þegar maður er orðinn 34 ára er mikilvægt að eiga í góðu sambandi við gott fólk og góð félög, metnaðarfullt fólk og metnaðarfull félög, metnaðarfull lið og það er nákvæmlega það sem Fram er. Ef ég get hjálpað á einhvern hátt á vellinum og utan hans á þessum stutta tíma sem ég verð hjá þeim er það frábært,“ sagði hann.
Guthrie var síðast á mála hjá Walsall í ensku D-deildinni en Guthrie og félagið komust að sameiginlegri niðurstöðu um að rifta samningnum hans í janúar á þessu ári vegna fjárhagsörðugleika félagsins. Eftir það leitaði Guthrie að félagi til að semja við á Englandi en honum leist ekki nægilega vel á neitt af því sem kom upp í heimalandinu.
Spurður um hvort hann sé vongóður um gott gengi með Fram í sumar sagði Guthrie: „Já ég er mjög spenntur. Ég hef verið að tala við Fram síðustu daga og var mjög spenntur að heyra í formanninum og þjálfaranum um þeirra áætlanir fyrir félagið. Þeir sögðu mér frá félaginu og sögu þess.
Ég var ekki með samning við neitt lið enda er tímabilinu að ljúka hér í Bretlandi þannig að þetta er góð lending fyrir alla. Ég er mjög spenntur að koma mér í form og betra stand og ég er viss um að félagið sé sömuleiðis mjög spennt yfir komu minni.“
Árið 2018 vatt hann kvæði sínu í kross og spilaði með indónesíska félaginu Mitra Kukar þar í landi. Guthrie sagðist enda ekki setja það fyrir sig í hvaða landi hann spilar.
„Ég elska að spila fótbolta og að keppa. Fyrir mér skiptir það engu máli í hvaða landi það er. Félagið og fólkið sem tengist félaginu skiptir mig meira máli og það að fá góða tilfinningu fyrir því.
Viðtal Valtýs Björns við Danny Guthrie í heild sinni má hlýða á hér.