Vona að Valur og Breiðablik skori ekki svona mikið á okkur hin

Stefanía Ragnarsdóttir og Hildur Þóra Hákonardóttir eigast við á Kópavogsvelli …
Stefanía Ragnarsdóttir og Hildur Þóra Hákonardóttir eigast við á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er fyrst og fremst svekktur,“ sagði Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 9:0-tap liðsins gegn Breiðabliki í 1. umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Kópavogsvelli í kvöld.

„Við vorum líkar sjálfum okkur í fyrri hálfleik en eftir að við fáum á okkur mark númer fjögur og fimm missum við algjörlega hausinn og það er eflaust mesta svekkelsið.

Varnarlega vorum við langt frá hver annarri og núna þurfum við að setjast yfir þennan leik, fara vel yfir hann og læra af honum enda ekkert annað í stöðunni,“ sagði Kjartan.

Tinna Brá Magnúsdóttir fékk níu mörk á sig á Kópavogsvelli.
Tinna Brá Magnúsdóttir fékk níu mörk á sig á Kópavogsvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Gerðum of mörg mistök

Fylkiskonur höfnuðu í þriðja sæti deildarinnar á síðustu leiktíð en liðið leit ekki vel út í kvöld.

„Það hefur oft verið auðvelt fyrir okkur að koma skilaboðum til leikmanna inn á völlinn en kannski var spennustigið bara of mikið í kvöld. Við gerðum einfaldlega of mörg mistök sem okkur var refsað fyrir.

Ég hef ákveðna skoðun á leiknum núna en það breytist örugglega þegar ég er kominn heim á eftir. Við vorum gríðarlega ólíkar sjálfum okkur því stelpurnar hafa alla tíð farið mjög vel eftir öllum fyrirmælum.

Þær spila eins og þeim er sagt að spila en það var alveg sama hvað við sögðum í kvöld, það var allt út og suður, en ég hef trú á því að við munum taka okkur saman í andlitinu og við höfum gert það áður.“

Það stefnir allt í að Breiðablik og Valur verði í sérflokki í deildinni í ár, líkt og undanfarin ár.

„Ég vona að deildin fari ekki í það að Valur og Breiðablik fari að skora svona mörg mörk á okkur hin sem eru með þeim í þessu.

Það er klárt mál að það er ákveðið bil á milli þessara tveggja liða og annarra liða í deildinni og það er nóg að horfa bara á úrslitin í deildabikarnum í vetur,“ sagði Kjartan í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert