Markmiðið að festa okkur í sessi í deildinni

Guðni Þór Einarsson eftir leikinn í kvöld.
Guðni Þór Einarsson eftir leikinn í kvöld. Ljósmynd/Sæþór Már Hinriksson

Guðni Þór Einarsson þjálfari Tindastóls var ánægður með leik sinna kvenna gegn Þrótti í kvöld en var súr yfir því að missa tvö stig í lok leiks.

Tindastóll og Þróttur Reykjavík gerðu 1:1 jafntefli í fyrstu umferð Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu sem fór fram á KS-vellinum á Sauðárkróki.

Hugrún Pálsdóttir skoraði fyrir eftir hornspyrnu á 35. mínútu en Þróttur jafnaði metin á 90. mínútu þegar að Katherine Amanda Cousins skoraði úr glæsilegri aukaspyrnu fyrir utan teig.

 „Við erum súr að hafa misst unnin leik frá okkur í jafntefli. En að sama skapi þá virðum við stigið og tökum því fagnandi. Mér fannst við eiga sigurinn skilið, og hafa þetta allt undir okkar stjórn. Við tökum stigið en erum jafnframt súr yfir því að hafa misst þetta frá okkur," sagði Guðni við mbl.is eftir leikinn.

Aðspurður að því hvort að leikplanið hafði gengið upp sagði Guðni: „Já ég myndi segja það, það gekk bara vel. Við ætluðum að vera þéttar og ekki gefa færi á okkur. Á köflum fannst mér þær þó eiga of auðvelt með að spila framhjá okkur, en við náðum að vera þéttar og loka vel og halda markinu okkar hreinu, framan af, það þurfti síðan aukaspyrnu uppí skeytin á 90. mínútu til að loksins að brjóta okkur niður“.

Tindastóll lék  sinn fyrsta leik frá upphafi í efstu deild kvenna en þær unnu 1. deildina í fyrra. „Markmiðið okkar er að festa okkur í sessi í deildinni, við höfum trú á því að liðið okkar sé samkeppnishæft í deildinni, við unnum Lengjudeildina nokkuð sannfærandi í fyrra, og við teljum okkur hafa liðið til að festa okkur í sessi í deildinni.

En fyrst og seinast viljum við bara njóta þess að vera í deildinni, hafa gaman af því að spila fótbolta, bæta okkur sem leikmenn og hópur. Við höfum trú á verkefninu og það mun fleyta okkur langt," sagði Guðni Þór Einarsson.

mbl.is