Sátt að fara heim með eitt stig frekar en ekki neitt

Þróttur jafnaði metin á lokamínútunum á Sauðárkróki í kvöld.
Þróttur jafnaði metin á lokamínútunum á Sauðárkróki í kvöld. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Elísabet Freyja Þorvaldsdóttir, hægri bakvörður Þróttar í leiknum gegn Tindastóli í Pepsi Max-deild kvenna á Sauðárkróki í kvöld, var svekkt með jafnteflið eftir leikinn.

Liðin skilu jöfn þar sem Tindastóll komst yfir á 35. mínútu með marki frá Hugrúnu Pálsdóttur eftir hornspyrnu. Þróttur jafnaði síðan í lok leiks á 90. mínútu með marki úr aukaspyrnu frá Katherine Cousins, 1:1.

„Þetta var svekkjandi og þetta fór ekki eins og þetta átti að fara. Það var svekkjandi að fá mark úr hornspyrnu á okkur sem átti ekki að vera horn að okkar mati. En ég er samt sátt að fara heim með eitt stig frekar en ekki neitt," sagði Elísabet Freyja við mbl.is eftir leikinn.

Þróttur átti töluvert fleiri færi en Tindastóll en erfiðlega gekk að koma boltanum inn fyrir línuna. „Varnarlega séð gekk leikplanið vel upp og líka sóknarlega. Við bjuggum til mörg færi en náðum einhvernveginn ekki að nýta okkur þau eins og við vildum, þannig að þetta fór ekki alveg eins og það átti að fara. En samt samt gekk leikplanið nokkurn veginn upp, það vantaði bara að koma boltanum í netið“.

Þróttarar lentu í 5. sæti deildarinnar á seinasta tímabili og ætla sér stærri hluti í ár. „Okkar markmið er að halda okkur uppi og gera betur en á síðasta tímabili," sagði Elísabet Freyja Þorvaldsdóttir.

mbl.is