Glæsilegur sigur KA í Frostaskjóli

Daníel Hafsteinsson sækir að marki KR-inga í Vesturbænum í kvöld.
Daníel Hafsteinsson sækir að marki KR-inga í Vesturbænum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

KA vann glæsilegan 3:1-sigur á KR á útivelli í 2. umferð Pepsi Max-deildar karla í fótbolta í kvöld. Hallgrímur Mar Steingrímsson var allt í öllu hjá KA en hann skoraði tvö mörk og lagði upp eitt.

Gestirnir í KA fóru mun sterkari af stað og það var verðskuldað þegar Hallgrímur Mar Steingrímsson kom gestunum yfir á 11. mínútu. Hann fékk þá boltann frá bróður sínum Hrannari Mar Steingrímssyni rétt utan teigs og skilaði honum með glæsilegu skoti í stöng og inn.

KA hélt áfram að sækja og var líklegra til að bæta við en KR að minnka muninn. Sú varð einmitt raunin á 28. mínútu þegar Brynjar Ingi Bjarnason skallaði í netið af stuttu færi eftir huggulega aukaspyrnu frá Hallgrími Mar frá hægri kanti.

Við annað markið lifnuðu KR-ingar við og freistuðu þess að minnka muninn. Eftir nokkrar álitlegar sóknir skoraði Guðjón Baldvinsson á lokamínútu fyrri hálfleiks og minnkaði muninn í 2:1. Guðjón kláraði þá vel af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf Kristins Jónssonar og var staðan í leikhléi 2:1, KA í vil.

KR sótti án afláts framan af í seinni hálfleik, fékk mikið af hornspyrnum og fínum tækifærum. Illa gekk hins vegar að reyna mikið á Steinþór Má Auðunsson í marki KA. Gestirnir héldu því forskotinu með sterkum varnarleik. Eftir því sem leið á seinni hálfleikinn jafnaðist leikurinn og KA fór að finna svæði fyrir aftan vörn KR-inga.

Það voru svo KA-menn sem skoruðu fjórða mark leiksins á 79. mínútu þegar Hallgrímur Mar bætti við sínu öðru marki með glæsilegu skoti í bláhornið fjær eftir fyrirgjöf frá Daníel Hafsteinssyni.  

KR náði ekki að skapa sér gott færi eftir þriðja mark gestanna og KA-menn tóku stigin þrjú með sér heim norður. 

KR-ingar steinsofandi í byrjun

KA var miklu sterkari aðilinn framan af í leiknum og komst verðskuldað í 2:0. Allt annað var að sjá til beggja liða frá fyrstu umferðinni. KR-ingar voru mjög slakir í samanburði við 2:0-sigurinn á Breiðabliki í fyrstu umferð og KA var mun líflegra fram á við en í markalausa jafnteflinu við HK. 

KR-ingar vöknuðu seinni hluta fyrri hálfleiks og náðu að minnka muninn fyrir hlé. KR réð lögum og lofum í upphafi seinni hálfleiks, en án þess þó að skapa sér mikið af færum gegn skipulögðu KA-liði. Það vantaði odd á spjót KR-inga á meðan KA-menn vörðust vel. 

Eftir því sem leið á seinni hálfleikinn byrjaði KA að finna glufur á vörn KR og að lokum var það KA sem skoraði fjórða og síðasta mark leiksins. 

Hallgrímur óstöðvandi

Hallgrímur Mar Steingrímsson átti glæsilegan leik; skoraði tvö og lagði upp eitt. Auk þess skapaði hann nánast öll færi KA sem hann komst sjálfur ekki í. Brynjar Ingi Bjarnason er orðinn afar góður miðvörður, ásamt því að hann er hættulegur í vítateig andstæðinganna. Með smá heppni hefði Brynjar getað skorað annað mark, en hann lék heilt yfir mjög vel gegn skæðum sóknarmönnum KR. 

Allt of margir leikmenn voru undir pari hjá KR. Pálmi Rafn Pálmason hefur oft spilað betur, Ægir Jarl Jónasson sást varla, fátt gekk upp hjá Óskari Erni Haukssyni, Atli Sigurjónsson skapaði lítið og Stefán Árni Geirsson gerði varla neitt. Fleiri leikmenn verða að spila vel til að KR vinni marga leiki í sumar. 

KR 1:3 KA opna loka
90. mín. KR fær hornspyrnu Kristinn vinnur hornspyrnu eftir mikla baráttu. Væntanlega of lítið og of seint fyrir KR.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert