Verður að lifa svona kafla af

Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði tvö og lagði upp eitt.
Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði tvö og lagði upp eitt. Mbl.is/Sigurður Ragnarsson

„Við byrjuðum þetta mjög vel og vorum góðir fyrstu 30. Mér fannst við vera með leikinn í höndum okkar,“ sagði Hallgrímur Mar Steingrímsson, besti maður KA í 3:1-sigrinum á KR á útivelli í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld, í samtali við mbl.is. 

Hallgrímur skoraði tvö mörk og lagði upp eitt til viðbótar. Hann bendir á að leikurinn hafi verið erfiður eftir að Spánverjinn Rodrigo Gómes varð fyrir höfuðmeiðslum, en KR minnkaði muninn skömmu síðar í 2:1. 

„Við urðum smá skelkaðir þegar Rodri fær höfuðhöggið. Við það föllum við neðarlega og missum smá takt. Þá fáum við mark í andlitið. Í seinni hálfleik vorum við ragir að halda boltanum og þeir liggja á okkur. Við lifðum það sem betur fer af og náðum að setja þriðja markið og áttum sigurinn skilið.“

KA-menn voru mun betri fyrsta hálftímann en eftir það var KR sterkari og hefði með smá heppni getað jafnaði í 2:2. Þess í stað skoraði Hallgrímur þriðja mark KA undir lokin. „Ég var smá pirraður en ef þú ætlar að vinna fótboltaleiki verður þú að lifa svona kafla af og við gerðum það. Kannski hefðum við ekki gert það í fyrra. Það er geggjaður karakter að lifa þetta af á þessum sterka útivelli og ná að setja mark eftir það,“ sagði Hallgrímur. 

mbl.is