Af hverju ekki að láta vaða?

Ásgeir Marteinsson skoraði glæsilegt mark.
Ásgeir Marteinsson skoraði glæsilegt mark. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Miðað við spilamennskuna heilt yfir þá erum við mjög ánægðir með eitt stig,“ sagði Ásgeir Marteinsson, leikmaður HK, í samtali við mbl.is eftir 2:2-jafntefli liðsins gegn Fylki í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. 

Fylkismenn komust í 2:0 en HK jafnaði með tveimur mörkum í seinni hálfleik. Ásgeir skoraði jöfnunarmarkið með aukaspyrnu af löngu færi í uppbótartíma. Þrátt fyrir það var hann ekki sáttur við spilamennsku liðsins. 

„Við erum flestallir ekki sáttir við okkur í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik en við vorum mun skárri í seinni. Við þurfum að vera tilbúnari næst. Þeir byrjuðu rosalega sterkt og eru töluvert betri aðilinn í fyrri hálfleik. Þegar þeir skora annað markið kemur kraftur í okkur og við náum þessu marki inn og svo þessu jöfnunarmarki og það var flott að ná allavega stigi.“

Ásgeir byrjaði á bekknum í kvöld en hann viðurkennir að hann sé alls ekki hrifinn af bekkjarsetunni. Hann gerði tilkall til að byrja næsta leik með stórkostlegu aukaspyrnumarki í lokin. 

„Stundum byrjar maður ekki, svo maður verður að koma inn og gera eitthvað. Ég nenni engan vegin að vera á bekknum og vonandi gerir maður tilkall næst. Ég ætlaði fyrst að gefa hann fyrir, en svo sá ég að markmaðurinn stóð framarlega og ég ákvað að láta vaða, af hverju ekki?"

mbl.is