Aukaspyrnumark í uppbótartíma tryggði stig

Valgeir Valgeirsson og Daði Ólafsson.
Valgeir Valgeirsson og Daði Ólafsson. mbl.is/Hari

Fylkir og HK skildu jöfn, 2:2, er þau mættust í 2. umferð Pepsi Max-deildar karla í fótbolta í Kórnum í kvöld. Varamaðurinn Ásgeir Marteinsson skoraði jöfnunarmark HK í uppbótartíma með aukaspyrnu af 30 metra færi eða svo. 

Djair Parfitt-Williams kom Fylki yfir strax á 5. mínútu er hann kláraði með góðu skot í stöng og inn eftir fína sókn og sendingu frá Þórði Gunnari Hafþórssyni.

Eftir markið voru HK-ingar mun meira með boltann en þeim tókst illa að skapa sér færi. Birkir Valur Jónsson ógnaði helst með sprettum upp hægri kantinn en hinn 18 ára gamli Ólafur Kristófer Helgason hafði lítið að gera í marki gestanna.

Hinum megin sóttu Fylkismenn hratt og komust nokkrum sinnum í álitlegar stöður. Það gekk hins vegar illa að reka endahnút á efnilegar sóknir og varði Arnar Freyr Ólafsson ekki skot í hálfleiknum, frekar en kollegi hans í markinu hinum megin og var staðan í leikhléi því 1:0.

Það gerðist meira á fyrstu 10 mínútum seinni hálfleiks en allan fyrri hálfleikinn því Parfitt-Williams skoraði sitt annað mark og annað mark Fylkis á 48. mínútu er hann rak endahnútinn á fallega skyndisókn gestanna með skoti af stuttu færi á fjærstönginni.

Aðeins þremur mínútum síðar minnkaði Stefan Ljubicic muninn með skalla af stuttu færi eftir að Ólafur Kristófer varði fast skot frá Arnþóri Ara Atlasyni. Stefan var fljótur að átta sig og kastaði sér á boltann á undan varnarmönnum og breytti stöðunni í 2:1.

HK reyndi hvað það gat til að jafna metin en við það skapaðist pláss fyrir Fylki að sækja og Arnór Borg Guðjohnsen fékk dauðafæri til að gulltryggja sigur Fylkis þegar skammt var eftir en honum tókst ekki að skora framhjá Arnari Frey þegar hann slapp einn í gegn.

Arnór átti eftir að sjá eftir því að gera ekki betur því að í uppbótartíma jafnaði varamaðurinn Ásgeir Marteinsson með stórglæsilegri aukaspyrnu af 30 metra færi. Ólafur Kristófer átti að gera miklu betur í marki Fylkis en Ásgeir fagnaði markinu vel og innilega, enda tryggði það HK eitt stig. 

Svekktir Fylkismenn 

Fylkismenn eru væntanlega afar súrir og svekktir með að taka ekki öll þrjú stigin. Þeir komust í 2:0 en fengu aðeins eitt stig eftir jöfnunarmark í uppbótartíma. Fylkisliðið er ungt og ákveðið reynsluleysi kom í ljós. Sex leikmenn Fylkis eru fæddir árið 2000 eða síðar og liðið þarf að læra hratt til að breyta jafnteflum í sigra. 

Arnór Borg Guðjohnsen fékk gott færi til að koma Fylki í 3:1, en í staðinn var Árbæingum refsað. HK spilaði heilt yfir ekki vel, en þeir eiga hrós skilið fyrir að ná í stig úr því sem komið var. 

Þá átti Ólafur Kristófer Helgason að gera miklu betur í jöfnunarmarkinu, sem var skot af 30 metrum og nokkurn veginn beint á hann. Það er gott og vel að gefa ungum leikmönnum tækifæri, en þeir verða að vera tilbúnir. Eins og staðan er núna er Aron Snær Friðriksson mun betri markvörður en Ólafur. Ólafur var of bráður allan leikinn og hljóp út í nokkra bolta sem hann átti engan möguleika í. Það verður áhugavert að sjá hvort Ólafur byrji næsta deildarleik. 

Bæði lið leita enn að fyrsta sigrinum, en þau verða að ná í hann fyrr frekar en síðar, ætli þau sér eitthvað annað en að berjast í neðri hlutanum. 

HK 2:2 Fylkir opna loka
90. mín. Fylkir fær hornspyrnu
mbl.is