Bjuggumst við því að vera spáð falli

Sævar Atli Magnússon fyrirliði Leiknis í baráttu við Róbert Orra …
Sævar Atli Magnússon fyrirliði Leiknis í baráttu við Róbert Orra Þorkelsson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Sævar Atli Magnússon, fyrirliði Leiknis úr Reykjavík, var á meðal markaskorara hjá nýliðunum í úrvalsdeildinni í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, er Leiknismenn gerðu jafntefli við Breiðablik í Breiðholtinu, 3:3.

Leiknismenn sóttu stig í Garðabæinn gegn Stjörnunni í fyrstu umferðinni og hafa nú tvö stig eftir fyrstu tvo leikina gegn sterkum andstæðingum. Heimamenn komust í 3:1-forystu í kvöld og viðurkenndi Sævar í samtali við mbl.is eftir leik að úr því sem komið var hefðu Leiknismenn einfaldlega átt að landa sigri.

„Við hefðum tekið þessu fyrir fram en erum svo komnir í virkilega góða stöðu og það er dapurt að hafa ekki klárað þetta,“ sagði hann en Blikar jöfnuðu metin á lokamínútu venjulegs leiktíma.

Sævar segir Leiknisliðið betra en margir halda, þótt það hafi ekki komið á óvart að liðinu var spáð falli enda nýliðar í deildinni.

„Við bjuggumst alveg við því að vera spáð falli en það er svekkjandi að ekki fleiri vita hvernig við spilum. Við getum verið margbreytilegir í okkar leik; legið til baka, sótt hratt og jafnvel stjórnað leikjum.

Allir leikir í þessari deild eru erfiðir, næst er það KA á útivelli. Ef við mætum svona gíraðir í alla leiki þá verðum við í toppmálum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert