Ekki í kortunum að þeir væru að fara að skora

Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis.
Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Við eigum að klára svona leik og sigla honum heim,“ sagði svekktur Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 2:2-jafntefli gegn HK í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. Fylkir komst í 2:0 en HK jafnaði í uppbótartíma er Ásgeir Marteinsson skoraði beint úr aukaspyrnu af löngu færi. 

„Það var ekkert í kortunum að þeir væru að fara að skora og mér leið þægilega að fá þá á okkur. Við náðum að koma í burtu og við áttum að vera búnir að klára þennan leik. Við fengum fullt af færum og þetta er mjög svekkjandi. Í fyrsta lagi dæmir dómarinn aukaspyrnu ranglega, þetta var aldrei brot. Ásgeir tekur svo frábæra aukaspyrnu og oft er lítið hægt að gera í aukaspyrnum.“

Hinn 18 ára gamli Ólafur Kristófer Helgason átti að gera betur í jöfnunarmarkinu, en Ragnar bendir á að fleiri Fylkismenn hefðu getað gert betur í nokkrum atvikum í leiknum. „Við áttum allir að gera betur í mörgum atriðum í þessum leik og Óli er sterkur karakter. Þetta var góð aukaspyrna hjá Ásgeiri sem fór í netið og þar við situr.“

Ragnar, sem er fæddur árið 1994, var næstelsti leikmaður Fylkis í byrjunarliðinu í kvöld. Aðeins Ásgeir Eyþórsson, fæddur 1993, er eldri. „Þetta er gríðarlega spennandi verkefni sem er í gangi og það er gaman að vera með þessum drengjum sem eru ólmir í að spila og æfa meira. Þeir vilja komast lengra og metnaðurinn í kringum hópinn er því góður. Ég nýt mín í botn sem þeirra leiðtogi.“

Birnir Snær Ingason, sóknarmaður HK, fékk gult spjald fyrir leikaraskap eftir baráttu við Ragnar. Fylkismaðurinn viðurkenndi að hann hafi óttast að Ívar Orri Kristjánsson dómari leiksins væri að flauta vítaspyrnu. 

„Það var klár dýfa og Birnir viðurkenndi það sjálfur. Ég hélt að Ívar myndi falla í gildruna hjá Birni en þetta var virkilega vel dæmt hjá Ívari. Þetta var bara dýfa,“ sagði Ragnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert