Jöfnunarmark á 90. mínútu

Helgi Guðjónsson kemur Víkingi yfir.
Helgi Guðjónsson kemur Víkingi yfir. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

ÍA og Víkingur gerðu 1:1 jafntefli í annarri umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Akranesi í kvöld. 

Í fyrstu umferð tapaði ÍA 0:2 á útivelli gegn Íslandsmeisturum Vals og er því með eitt stig. Víkingur vann hins vegar 1:0 sigur gegn nýliðum Keflavíkur og er því með fjögur stig. 

Víkingar fengu algera óskabyrjun og skoruðu eftir um það bil 50 sekúndur. Helgi Guðjónsson gerði það af stuttu færi eftir hornspyrnu frá hægri. 

Staðan var 1:0 fyrir Víking þar til á 90. mínútu. Pétur Guðmundsson dæmdi þá vítaspyrnu. Fór boltinn í hönd Víkings í eigin vítateig eftir hornspyrnu ÍA. 

Þórður Þorsteinn Þórðarson skoraði úr vítaspyrnunni og jafnaði en Þórður kom inn á sem varamaður í upphafi síðari hálfleiks. 

Leikurinn var spilaður við nokkuð erfiðar aðstæður. Ansi hvass vindur setti svip sinn á leikinn. Víkingar voru betri í fyrri hálfleik en Skagamenn í þeim síðari og úrslitin ef til vill sanngjörn. 

Erfitt að leika góða knattspyrnu

Mark á fyrstu mínútu getur haft áhrif á hvernig leikir þróast. Markið var skiljanlega kjaftshögg fyrir Skagamenn og þeir voru ekki mjög ógnandi í fyrri hálfleik. Víkingar voru heldur ekki mjög sóknardjarfir en þeir voru yfir og líklega sáttir við stöðuna. 

Eftir daufan fyrri hálfleik voru ekki endilega vísbendingar um að ÍA myndi skora og ná í stig. En eitthvað hefur Jóhannes Karl Guðjónsson sagt við sína menn í leikhléi því mikill kraftur var í Skagamönnum fyrsta korterið í síðari hálfleik. Þá átti ÍA nokkur skot á mark Víkings en Þórður Ingason markvörður Víkings sá við þeim. Víkingar eru afskaplega vel settir með markverði svo ekki sé meira sagt. 

Sölvi Geir Ottesen fyrirliði Víkings með knöttinn í kvöld.
Sölvi Geir Ottesen fyrirliði Víkings með knöttinn í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

ÍA náði ekki alveg að fylgja eftir kraftmikilli byrjun í síðari hálfleik og svo virtist sem Víkingur myndi ná í þrjú stig með því að vera 1:0 yfir í 90 mínútur. Skagamenn voru duglegir að senda boltann inn á teiginn hjá Víkingum. En Víkingar eru ekki heppilegasta liðið til að reyna fyrirgjafir á móti með þá Sölva Geir Ottesen og Kára Árnason til að skalla boltann frá. Þegar andstæðingarnir eiga hornspyrnu þá bætist Nikolaj Hansen. 

En jöfnunarmarkið kom hjá ÍA og fyrsta stig sumarsins. Ég var ekki í aðstöðu til að sjá hvort Pétur dómari hafi haft rétt fyrir sér en hann virtist viss í sinni sök. Skagamenn mótmæltu marki Víkings og töldu að Helgi Guðjónsson gæti hafa verið rangstæður þegar hann skoraði. Í báðum tilfellum var mikil þvaga í teignum enda verið að framkvæma hornspyrnur og vonlaust að dæma um slík tilfelli úr blaðamannastúkunni. 

Kuldalegir áhorfendur á Skaganum í kvöld.
Kuldalegir áhorfendur á Skaganum í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Víkingar eiga væntanlega nokkuð inni í sókninni. Á góðum degi skapar liðið sér örugglega fleiri góð marktækifæri en það gerði í kvöld. Á heildina litið var leikurinn ekki sérlega skemmtilegur. Sófasérfræðingar yrðu líklega fljótir að fella þann dóm yfir leikmönnum að þeir hafi verið slakir í kvöld.

En þegar vel er að gáð þá voru aðstæður það erfiðar að erfitt hefði verið að skemmta áhorfendum. Þeim sem máttu sækja leikinn. Leikmenn léku með kvöldsólina í byrjun maí í andlitið, í nógu miklu hvassviðri til að það setji svip sinn á leikinn, í kulda og á velli sem greinilega var erfiður viðureignar á þessum árstíma þótt hann sé fjarskafallegur. 

ÍA 1:1 Víkingur R. opna loka
90. mín. Fjórum mínútum er bætt við leiktímann
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert