Hann negldi í sköflunginn á mér

Jónatan Ingi Jónsson á Kaplakrikavelli í kvöld.
Jónatan Ingi Jónsson á Kaplakrikavelli í kvöld. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

„Við erum mjög svekktir og mér líður eins og við höfum tapað,“ sagði svekktur Jónatan Ingi Jónsson, leikmaður FH, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli liðsins við Val í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. 

FH-ingar komust í 1:0 á 38. mínútu, 14 mínútum eftir að Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, fékk beint rautt spjald. Þrátt fyrir það tókst Valsmönnum að jafna í seinni hálfleik. 

„Við eigum að drepa þennan leik í stöðunni 1:0 og manni fleiri. Við fáum haug af þrír á móti tveimur og fjórir á móti þremur en við nýtum ekki færin á meðan þeir fá eitt færi. Valur er með hörkulið en við vorum betri í dag og áttum að vinna.“

Jónatan viðurkennir að FH-ingar hafi að einhverju leyti boðið upp á jöfnunarmark. „Að einhverju leyti gerðum við það. Við vorum opnari og urðum passífir. Við fórum að vernda 1:0 frekar en að reyna að sækja 2:0 og því fór sem fór.“

Haukur Páll fékk rauða spjaldið fyrir að brjóta á Jónatan, en Valsmaðurinn sparkaði Jónatan niður eftir að hann potaði boltanum í burtu þegar Haukur reyndi að taka aukaspyrnu. FH-ingurinn veiddi því Hauk í ákveðna gildru. 

„Ég á eftir að sjá þetta aftur því þetta gerðist mjög snöggt. Eina sem ég veit er að hann negldi í sköflunginn á mér. Þetta var ekki þægilegt,“ sagði Jónatan Ingi. 

mbl.is