Árangurstengdir bónusar í boði fyrir KR-inga

Frá undirritun samningsins í Vesturbæ Reykjavíkur.
Frá undirritun samningsins í Vesturbæ Reykjavíkur. Ljósmynd/Alvotech

Líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech og knattspyrnudeild KR hafa skrifað undir samstarfssamning fyrir keppnistímabilið 2021. Samningurinn nær til allra knattspyrnuflokka KR.

Róbert Wessman, stjórnarformaður Alvotech og Páll Kristjánsson formaður knattspyrnudeildar KR sem undirrituðu samninginn í KR heimilinu í Frostaskjóli.

Í fréttatilkynningu segir að Alvotech muni „greiða árangurstengda bónusa nái félagið tileknum markmiðum,“ en ekki er getið nánar um hver þau markmið eru. Leikmenn úr karla- og kvennaliðum KR munu fá hvatningarverðlaun í lok keppnistímabilsins sem kennd verða við fyrirtækið.

Alvotech er jafnframt styrktaraðili körfuknattleiksdeildar KR og tekur við af systurfélagi sínu Alvogen sem styrktaraðili knattspyrnudeildar KR en það samstarf stóð frá árinu 2014. 

Fréttatilkynningin:

„Samningurinn felur í sér ýmiss konar samstarf og viðburði en auk þess mun Alvotech greiða árangurstengda bónusa nái félagið tilteknum markmiðum.

Sérstök hvatningarverðlaun í nafni Alvotech verða veitt í lok tímabilsins til þeirra leikmanna sem skara fram úr í knattspyrnu karla og kvenna í hverjum flokki fyrir sig. 

Alvotech kostar jafnframt „Allir sem einn daginn“ sem er sérstakur hátíðisdagur tileinkaður yngri flokkum KR. Markmið dagsins er að hvetja börn til þátttöku í starfi félagsins og efla tengsl félagsins við nær samfélagið í Vesturbænum.

Róbert Wessman sagði við þetta tilefni að stuðningur við íþróttastarf félli einstaklega vel að starfsemi fyrirtækisins sem miðar að því að bæta heilsu og lífsgæði fólks. „Við vitum einnig að þátttaka í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi er mikilvæg forvörn í baráttunni gegn vímuefnanotkun og það er okkur því sérstök ánægja að styðja með þessum hætti við ungliðastarf nágranna okkar í Vesturbænum“.

Alvotech tekur við samningnum af systurfélagi sínu Alvogen sem hefur verið styrktaraðili frá árinu 2014. Alvotech er jafnframt styrktaraðili körfuknattleiksdeildar KR.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert