Verður skrítið þar til jafnvægi næst

Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni á Skaganum.
Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni á Skaganum. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings R. í knattspyrnu, segir upphaf Íslandsmótsins minna sig nokkuð á upphafs mótsins í fyrra.

Víkingur er með 4 stig eftir tvo leiki. Liðið vann Keflavík 1:0 á heimavelli og gerði 1:1 jafntefli gegn ÍA.

„Þetta minnir mig svolítið á tvo fyrstu leikina í fyrra að því leyti að við finnum ekki alveg taktinn í sókninni. Þá vorum við með tvö stig eftir fyrstu tvo leikina en nú erum við með fjögur stig. Við gefum heldur ekki mikið frá okkur. Í ljósi þess að margir leikir verða spilaðir í maí þá snýst þetta um að safna stigum og við erum komnir með fjögur. Alveg sama hvað hver segir um Skagann þá er Akranes drulluerfiður útivöllur og við fengum stig. Sérstaklega eins og aðstæður voru og þetta er fín uppskera eftir tvo leiki,“ sagði Arnar þegar mbl.is tók hann tali eftir leikinn gegn ÍA á æskustöðvum Arnars og benti á að liðin í deildinni séu að þreifa hvert á öðru þar sem undirbúningurinn hafi verið óhefðbundinn. 

„Liðin koma mismunandi undan vetri og öllu þessu Covid-bulli. Þú sérð bara hvernig úrslitin hafa verið. KR tapaði og Leiknir náði stigi af Blikunum. Þetta verður svolítið skrítið þar til deildin kemst í einhvers konar jafnvægi og menn þurfa að berjast fyrir hverju stigi.“

ÍA og Víkingur gerðu 1:1 jafntefli í 2. umferð Pepsí Max-deildarinnar. Víkingur skoraði á fyrstu mínútu leiksins en ÍA á þeirri nítugustu. „Það var stutt eftir af leiknum þegar þeir jöfnuðu. Þetta var því súrt en ég held að þetta hafi verið sanngjörn niðurstaða. Þetta var hrikalega erfiður leikur fyrir bæði lið. Erfiður völlur, sterkur vindur en menn reyndu að gera sitt besta. Við féllum fullfljótt til baka en ég gat ekki alveg séð hvernig mark frá ÍA ætti að koma því þeir spiluðu svolítið upp á okkar styrkleika, þ.e.a.s þeir sendu boltann inn á teiginn og þar gátu Sölvi og Kári unnið skallaboltana. Það var svekkjandi að fá mark á sig á þennan hátt,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, en jöfnunarmark ÍA kom úr vítaspyrnu sem dæmd var á leikmann Víkings fyrir að slæma hönd í boltann eftir hornspyrnu. 

Erlingur Agnarsson og Elias Tamburini í leik ÍA og Víkings.
Erlingur Agnarsson og Elias Tamburini í leik ÍA og Víkings. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert