Vilja fresta leiknum í Árbænum

Tindastóll er nýliði í efstu deild en liðið á að …
Tindastóll er nýliði í efstu deild en liðið á að mæta Fylki í Árbænum á morgun. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Knattspyrnudeild Tindastóls vinnur nú að því að fá leik Fylkis og Tindastóls í úrvalsdeild kvenna, Pepsi Max-deildinni, frestað.

Þetta kom fram í hlaðvarpsþættinum Boltinn á Norðurlandi á fótbolta.net í dag.

Liðin eiga að mætast á Würth-vellinum í Árbænum í annarri umferð deildarinnar á morgun en Sauðkrækingar vilja fresta leiknum vegna mikillar aukningu kórónuveirusmita í Skagafirði.

„Staðan hefur verið betri, meistaraflokkar karla og kvenna hafa farið í skimun og beðið er eftir niðurstöðum. Það eru einhver smit í samfélaginu," sagði Óskar Smári Haraldsson, annar þjálfari Tindastóls, í hlaðvarpsþættinum Boltinn á Norðurlandi.

„Æfingar hjá meistaraflokkunum mega fara fram en allt annað er sett til hliðar. Ef ég á að vera hreinskilinn þá efast ég um að leikurinn fari fram á þriðjudaginn," bætti Óskar við.

Fylkiskonur fengu skell í 1. umferð deildarinnar gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli og töpuðu 9:0, en Tindastóll gerði 1:1-jafntefli við Þrótt úr Reykjavík á Sauðárkróki þar sem jöfnunarmark Þróttara kom í uppbótartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert