Kjartan Henry á heimleið

Kjartan Henry Finnbogason er á leiðinni heim í KR.
Kjartan Henry Finnbogason er á leiðinni heim í KR. Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Kjartan Henry Finnbogason hefur fengið samningi sínum rift hjá danska B-deildarfélaginu Esbjerg og er á leiðinni heim í uppeldisfélag sitt KR.

Fótbolti.net greinir frá.

Kjartan Henry gekk til liðs við Esbjerg í janúar síðastliðnum frá úrvalsdeildarfélaginu Horsens og hjálpaði til í toppbaráttunni í B-deildinni.

Í gær varð það hins vegar ljóst að Esbjerg kemst ekki upp í dönsku úrvalsdeildina, það kemur í hlut Viborg og Silkeborg.

Enn eru þrír leikir eftir af dönsku B-deildinni en þar sem liðið hefur ekki að neinu að keppa lengur komust forsvarsmenn Esbjerg og Kjartan Henry að samkomulagi um að rifta samningnum.

Samningur Kjartans Henry átti að renna út í lok júní en hann er nú laus allra mála og getur samið við KR áður en félagaskiptaglugginn hér á landi lokar á morgun.

mbl.is