Fylkir - KR, staðan er 1:1

Ægir Jarl Jónasson og Arnór Borg Guðjohnsen í baráttu í …
Ægir Jarl Jónasson og Arnór Borg Guðjohnsen í baráttu í Árbænum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fylkir og KR skildu jöfn, 1:1, í þriðja leik liðanna í Pepsi Max-deild karla. Bæði mörk komu snemma í fyrri hálfleik og einkenndist leikurinn eftir það af mikilli og hraðri baráttu. Hins vegar skorti upp á fínlegheitin á síðasta þriðjungi vallarins og úrslitin líklega sanngjörn. 

Fyrri hálfleikur hófst af miklum krafti, því boltinn lá í neti gestanna strax á 3. mínútu. Fylkismenn fengu þá aukaspyrnu og gáfu fyrir á kantmanninn snögga Arnór Borg Guðjohnsen. Hann setti boltann strax inn í teig, en þar varð Arnór Sveinn Aðalsteinsson, varnarmaður KR-inga, fyrir því óláni að slæma fæti í boltann. Skoraði hann þar með fyrsta sjálfsmark sumarsins.

Félagi Arnór Sveins í vörninni, Grétar Snær Gunnarsson, jafnaði hins vegar fyrir KR-inga einungis fjórum mínútum síðar. Markið kom, líkt og mark Fylkismanna, upp úr aukaspyrnu sem KR-ingar náðu að skalla áfram inn í markteig. Fékk Grétar Snær þar góðan tíma til að athafna sig og uppskar fyrsta mark sitt fyrir Vesturbæinga. 

Hin fjörlega byrjun reyndist ekki fyrirboði um frekara markaregn í fyrri hálfleik, jafnvel þótt liðin færu hratt yfir og boltinn færi teiga á milli. Ríkti nokkurt jafnræði með liðunum fram eftir hálfleik, en þótt fjörið væri mikið úti á velli kárnaði gamanið heldur þegar kom að því að reka smiðshöggið á sóknir liðanna. 

Seinni hálfleikur hófst með svipuðum látum og sá fyrri, en þá virtist sem Kennie Chopart, sem þá var á gulu spjaldi, hefði brugðið sóknarmanni Fylkis í teignum. Arnór Borg steig á vítapunktinn og átti fast og öruggt skot, sem Beitir Ólafsson, markvörður KR, varði hins vegar vel. Hinum megin á vellinum átti Aron Snær Friðriksson einnig fínar markvörslur, en hann var nú í byrjunarliði í fyrsta sinn í sumar. 

Eftir því sem leið á leikinn sóttu Fylkismenn í sig veðrið, en þó var aldrei hægt að afskrifa KR-inga. Heimamenn urðu þó ágengari eftir því sem nær dró leikslokum, og fékk varamaðurinn Þórður Gunnar Hafþórsson, sem þá var nýkominn inn á, líklega besta færið til þess að skora sigurmarkið í uppbótartíma, en náði ekki að nýta sér það. 

Liðin sættust því á skiptan hlut, og geta bæði verið sátt og ósátt við stigið á sama tíma. Þannig hefðu KR-ingar viljað hefja báða hálfleika betur en þeir gerðu, þótt þeir slyppu með skrekkinn, en Fylkismenn geta sömuleiðis nagað sig í handarbökin að hafa ekki nýtt síðustu mínúturnar betur. KR er nú með fjögur stig eftir þrjá leiki, og Fylkir bíður enn eftir fyrsta sigrinum, en liðið hefur gert tvö jafntefli og tapað einum. Líklega verður þess þó ekki langt að bíða að sá sigurleikur líti dagsins ljós.

Fylkir 1:1 KR opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er fjórar mínútur hið minnsta. Fylkismenn hafa verið líklegri síðustu mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert