Sannfærandi KA-menn efstir í deildinni

Hallgrímur Mar Steingrímsson skorar úr vítaspyrnu hjá Guy Smit markverði …
Hallgrímur Mar Steingrímsson skorar úr vítaspyrnu hjá Guy Smit markverði Leiknis. Hallgrímur afgreiddi tvær vítaspyrnur í leiknum á Dalvík. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Fyrsti heimaleikur KA í Pepsi-Max deild karla fór fram á Dalvík nú síðdegis. Leiknismenn úr Breiðholti voru í heimsókn og var spilað á glæsilegum gervigrasvelli Dalvíkinga.

KA var sterkara liðið í leiknum og vann að lokum 3:0. Tvö marka KA komu af vítapunktinum og setti Hallgrímur Mar Steingrímsson boltann í netið í báðum tilfellum. Hann er nú kominn með fjögur mörk eftir þrjá fyrstu leiki KA. 

KA-menn voru beittari lungann úr fyrri hálfleiknum og náðu þeir oft upp góðu spili sem skilaði ágætis færum. Guy Smit í marki Leiknis var í hörkuformi og varði hann vel í hálfleiknum. Hallgrímur Mar Steingrímsson afgreiddi þó vítaspyrnu í netið eftir að brotið var á Steinþóri Frey Þorsteinssyni. Kom markið eftir kortérsleik og hefði KA hæglega getað bætt við marki en staðan var 1:0 í hálfleik. 

Snemma í seinni hálfleik fékk KA aðra vítaspyrnu og kom sér í 2:0. Leiknismenn höfðu haldið boltanum allan hálfleikinn fram að því og virkaði mark KA sem löðrungur á vanga Leiknismanna. Botninn datt smám saman úr leik þeirra og KA gekk á lagið. Ásgeir Sigurgeirsson skoraði þriðja mark KA og geirnegldi þar stigin þrjú. 

Leiknismenn misstu mann af velli þegar stutt var eftir. Octavio Páez gerði sig sekan um glórulaust brot og fékk beint rautt spjald. Svona brot eiga ekkert skylt við fótbolta og ætti að skoða sérstaklega. KA sigldi sigrinum heim í rólegheitum og fengu ungir leikmenn eldskírn sína í efstu deild. 

Dalvíkingarnir og tvíburabræðurnir Þorri Mar og Nökkvi Þeyr Þórissynir voru saman í byrjunarliði KA og helguðu sér hægri kantinn. Þeir voru flottir saman og KA er með tvö góð bræðrapör í leikmannahópnum. Haukur Heiðar Hauksson var svo kominn aftast á miðjuna og sýndi að hann hefur engu gleymt. 

Hjá Leikni var Guy Smit langbestur en aðrir leikmenn hafa átt betri dag, sérstaklega menn í varnarlínunni, sem gáfu tvö óþarfa víti. 

KA situr á toppi deildarinnar með sjö stig en Leiknir er neðarlega með tvö stig. 



KA 3:0 Leiknir R. opna loka
90. mín. KA fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert