Þurfum að skrúfa fyrir lekann

Ægir Jarl Jónasson og Arnór Borg Guðjohnsen í leiknum í …
Ægir Jarl Jónasson og Arnór Borg Guðjohnsen í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Atli Sveinn Þórarinsson, annar þjálfara Fylkis, segir lið sitt hafa staðið sig vel, þegar Árbæingar gerðu 1:1 jafntefli við KR-inga í þriðju umferð Pepsi Max-deildar karla í kvöld. Hann hefði að sjálfsögðu viljað sigurinn, en á sama tíma verði að virða þau stig sem uppskerist.  

Hann segir að eftir fjörugan fyrri hálfleik hafi upplegg hans og Ólafs Stígssonar, hins þjálfara Fylkis, verið að halda áfram því sem gafst vel í þeim síðari. „Við lögðum upp með að halda áfram hratt tempó á boltanum og töldum okkur hafa opnað þá vel í fyrri hálfleik með því annars vegar að spila á milli línanna og hins vegar að leita bak við.“

Það upplegg skilaði sannarlega árangri strax í upphafi seinni hálfleiks, þar sem Fylkismenn fengu vítaspyrnu, sem fór forgörðum. „En KR-ingar eru auðvitað með mjög gott fótboltalið, þannig að þeir fá alltaf sín færi og sín upphlaup, en mér fannst við leysa vel úr því, þannig að þeir fengu ekki mikið af færum,“ segir Atli Sveinn. 

„En svo verð ég auðvitað að hrósa mínu liði, þrátt fyrir að við fáum á okkur mark úr aukaspyrnu þarna í upphafi leiks, vörðumst við þeim vel það sem eftir lifði leiks,“ segir Atli Sveinn.

Ólafur Ingi Stígsson og Atli Sveinn Þórarinsson þjálfa Fylkisliðið.
Ólafur Ingi Stígsson og Atli Sveinn Þórarinsson þjálfa Fylkisliðið. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hann segir vítið hafa verið vel varið og ekkert hægt að sakast við Arnór Borg Guðjohnsen í þeim efnum. „Maður hefur séð miklu verri vítaspyrnur fara í netið, svo maður orði það bara þannig.“

Eftir því sem leið á leikinn óx Fylkismönnum ásmegin. „Okkur fannst við líklegri, og Þórður Gunnar fær eitt hálffæri, en tekst ekki að leggja boltann fyrir sig. En að sama skapi er aldrei hægt að vera í rónni þegar KR er annars vegar,“ segir Atli Sveinn. „Auðvitað hefðum við viljað þrjú stig, en maður virðir líka stigið á móti þeim.“

Þrátt fyrir fína frammistöðu í kvöld eru Fylkismenn enn án sigurs, og hafa gert tvö jafntefli. En hvað þurfa Fylkismenn að gera betur í næstu leikjum? „Við þurfum auðvitað að halda markinu okkar hreinu. Við verjumst ágætlega í heildina, en fáum samt mörk á okkur,“ segir Atli Sveinn og segir erfitt að vinna leiki þegar alltaf þurfi að skora tvö til þrjú mörk. „Við þurfum að skrúfa fyrir lekann.“

Atli Sveinn er bjartsýnn á framhaldið eftir frammistöðu kvöldsins, en telur næsta leik Fylkisliðsins við Leikni á útivelli vera ákveðinn prófstein. „Leiknismenn eru með gott lið og hafa sýnt það, þjálfararnir þar hafa unnið frábært starf og þeir eru með hörkulið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert