Blikar og Stjörnumenn þurfa sigra

Ná Blikar í sinn fyrsta sigur í kvöld?
Ná Blikar í sinn fyrsta sigur í kvöld? Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Í kvöld fara fram fjórir leikir í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, þegar þriðju umferðinni lýkur. Bæði Breiðablik og Stjarnan hafa byrjað mótið illa og aðeins náð í eitt stig hvort í fyrstu tveimur umferðunum.

Breiðablik byrjaði á að tapa á heimavelli gegn KR og lenti svo í gífurlegum vandræðum gegn nýliðum Leiknis úr Reykjavík í annarri umferðinni þegar það lenti 1:3 undir en náði svo að bjarga jafntefli með því að jafna í 3:3 seint í leiknum.

Breiðablik fær nýliða Keflavíkur í heimsókn á Kópavogsvöllinn í kvöld og freistar þess að ná í sinn fyrsta sigur á tímabilinu. Það verður þó ekki hlaupið að því, enda Keflvíkingar með sterkt lið og unnu Stjörnuna 2:0 í annarri umferðinni eftir naumt 0:1 tap gegn Víkingi Reykjavík í fyrsta leik.

Stjarnan fær einmitt Víking í heimsókn á Samsung-völlinn í kvöld. Stjarnan byrjaði á markalausu jafntefli gegn nýliðum Leiknis og tapaði sem áður segir suður með sjó gegn hinum nýliðunum, Keflavík.

Stjarnan stefnir því í kvöld, líkt og Breiðablik, að því að vinna sinn fyrsta sigur í sumar. Víkingur fylgdi sigrinum gegn Keflavík í fyrstu umferðinni eftir með 1:1 jafntefli gegn ÍA á Akranesi og mætir því taplaust í Garðabæinn.

Heimasigrar gegn minni spámönnum?

Valur og FH skildu jöfn, 1:1, í stórslag annarrar umferðar eftir að hafa bæði unnið fyrstu leiki sína 2:0; Valur gegn ÍA á heimavelli og FH gegn Fylki á útivelli.

Í kvöld eiga þau bæði heimaleik gegn liðum sem er spáð í neðri helmingi deildarinnar. Valur tekur á móti HK, sem hefur gert jafntefli í fyrstu tveimur leikjum sínum í Kórnum og hafa Kópavogsbúar raunar gert 14 jafntefli í síðustu 20 deildarleikjum.

Valsmanna bíður því erfitt verkefni að brjóta þétt lið HK-manna á bak aftur en verða að vinna leiki sem þessa ætli liðið sér að verja Íslandsmeistaratitilinn.

FH tekur svo á móti ÍA, sem er með eitt stig eftir fyrstu tvær umferðirnar. Eftir að hafa misstigið sig í leiknum gegn Val, þar sem liðið lék einum fleiri í um 70 mínutur en fékk á sig jöfnunarmark, freista Hafnfirðingar þess að komast aftur á beinu brautina í toppbaráttunni er liðið gerir atlögu að sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli síðan árið 2016.

Allir fjórir leikir kvöldsins verða í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Leikir kvöldsins í Pepsi Max-deild karla:

19.15 Breiðablik - Keflavík

19.15 Valur - HK

19.15 Stjarnan - Víkingur R.

19.15 FH - ÍA

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert