Dómarar hagræða sínum útskýringum

Þorvaldur Örlygsson var svekktur eftir tap.
Þorvaldur Örlygsson var svekktur eftir tap. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það var svekkjandi að tapa, það segir sig sjálft,“ sagði svekktur Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 2:3-tap liðsins fyrir Víkingi Reykjavík í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. Víkingar komust þrisvar yfir, en Stjörnumenn jöfnuðu í tvígang. Ekki tókst að jafna í þriðja sinn hins vegar. 

„Við vorum að elta en það var góður hugur í mönnum og þeir lögðu sig fram. Mér fannst við stjórna þessu ágætlega þótt við værum að elta. Við gáfum klaufaleg mörk en héldum áfram og í stöðunni 2:2 fannst mér við vera með algjöra stjórn. Þá fáum við þetta mark á okkur úr horni sem er þeirra eini séns eins og leikurinn var að spilast,“ sagði Þorvaldur við mbl.is. 

Annað mark Víkings kom úr vítaspyrnu sem Þorvaldur var ekki sáttur við.  

„Aftur fáum við á okkur víti. Í síðasta leik fengum við á okkur víti sem var ekki víti og í kvöld aftur. Það er alltaf þessi sama umræða, hendi eða ekki hendi. Rétt á undan var hendi á Víking rétt utan teigs og þá var útskýringin á einn hátt en svo fengum við aðra útskýringu í vítinu. Þetta er regla sem verður umtöluð áfram og við fáum aldrei útskýringu á. Dómarar hagræða sínum útskýringum eins og þeim hentar. Fyrir rest veit engin hvað er hendi og hvað er ekki hendi.

Ég sá þetta eins vel og hægt var að sjá það frá þeim stað sem ég var á. Leikmaðurinn minn renndi sér niður en svo getum við rætt áfram hvort þetta hafi verið hendi. Mér fannst við eiga að fá víti í seinni hálfleik fyrir hendi.“

Það segir sig sjálft 

Þorvaldur var stuttorður og ekki sáttur þegar talið barst að einu stigi í fyrstu þremur umferðunum hjá Stjörnumönnum. „Það segir sig sjálft að við erum að reyna að safna stigum. Deildin gengur út á að safna stigum, hvort sem það eru við eða aðrir.“

Þorvaldur tók við af Rúnari Páli Sigmundssyni sem aðalþjálfari Stjörnunnar þegar Rúnar sagði upp störfum á dögunum. Liðið hefur hins vegar lítið getað æft eftir að Þorvaldur tók við þar sem þétt er spilað í upphafi móts. 

„Við vorum að þjálfa saman í allan vetur en við höfum ekki haft mikinn tíma til að æfa þar sem það er stutt á milli leikja. Við höldum áfram með það sem er búið að vinna með undanfarin ár. Við höldum áfram að reyna að fá menn til að vinna leiki. Ég fékk Ejub inn og er þakklátur fyrir það. Við höldum áfram,“ sagði Þorvaldur. 

mbl.is