Ekki oft sem maður hittir hann svona

Almarr Ormarsson tryggði Valsmönnum sigur í kvöld.
Almarr Ormarsson tryggði Valsmönnum sigur í kvöld. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Ég og fyrst og fremst ánægður með að klára þennan leik,“ sagði Almarr Ormarsson, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 3:2-sigur liðsins gegn HK í 3. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

„Við vissum fyrir leik hvernig HK spilar og þeir eru virkilega góðir í því sem þeir gera þegar þeir hitta á góðan dag. Þeir voru okkur erfiðir í dag og voru duglegir að dæla háu boltunum upp á Stefan Alexander sem er mjög sterkur í loftinu. Við reyndum að vera vel vakandi fyrir seinni boltunum og mér fannst okkur takast það nokkuð vel.

Þegar maður kemur inn á svona leik þá er lítið annað að gera en að gera sitt besta. Auðvitað vill maður byrja leiki og mig langaði að byrja í dag en það er Heimir Guðjónsson sem velur liðið og vonandi kemur að því einn daginn að hann velji mig í liðið. Þangað til bíður maður bara þolinmóður eftir sínu tækifæri,“ sagði Almarr.

Gaman á Hlíðarenda 

Almarr tryggði Valsmönnum sigur með marki á 90. mínútu þegar hann þrumaði knettinum í markið af D-boganum með vinstri fæti.

„Sverrir var í einhverri baráttu þarna í teignum og nær svo að pota honum til mín. Ég hitti hann ágætlega með vinstri og inn fór hann.

Eina markið mitt í fyrra kom líka með vinstri fæti en ég hugsa að maður hafi nú skorað þau fleiri með hægri fæti.

Það er ekki oft sem maður hittir hann svona vel með vinstri en sem betur fer tókst það í dag.

Almarr gekk til liðs við Val frá KA fyrir tímabilið en hann hefur einnig leikið með Fram, KR og Fjölni í efstu deild hér á landi.“

„Mér líður mjög vel í Val, þetta er frábær klúbbur og það hefur verið tekið mjög vel á móti mér hérna. Við erum að byrja mótið ágætlega og ég er sáttur hingað til.

Það var alltaf drullugaman í KA með sínu uppeldisfélagi en pressan þar var kannski aðeins öðruvísi en hér. Maður þekkir það samt vel eftir tíma sinn hjá KR hvernig það er að spila með pressu á bakinu.

Það er gaman að vera í félagi sem ætlar sér að vinna þann stóra á hverju ári, helst bikarinn líka og fara langt í Evrópukeppni,“ bætti Almarr við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert