Flautar á eitthvert algjört kjaftæði

Guðmundur Þór Júlíusson, fyrirliði HK-inga.
Guðmundur Þór Júlíusson, fyrirliði HK-inga. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég er virkilega svekktur því mér fannst við eiga vinna þennan leik,“ sagði Guðmundur Júlíusson, fyrirliði HK, í samtali við mbl.is eftir 3:2-tap liðsins gegn Val í 3. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

„Þeir eiga tvö skot á markið í seinni hálfleik og skora tvö mörk. Við erum að gera okkar allra besta þarna í vörninni en það er erfitt að koma í veg fyrir þessi mörk eins og aukaspyrnuna sem dæmi.

Dómarinn flautar á eitthvert algjört kjaftæði að mínu mati og svo fer Örvar upp hinum megin stuttu áður og ekkert dæmt. Þetta gerðist nokkrum sinnum í leiknum og er óásættanlegt fyrir okkur því við fáum klárlega betri og fleiri færi en þeir.

Mér fannst halla á okkur í dómgæslunni. Þeir voru að henda sér niður tekk í trekk og það var alltaf dæmt á það. Svo vorum við að reyna fá það sama hinum megin en fáum það ekki sem er hundfúlt.

Við töpuðum ekki leiknum á dómgæslunni í dag en hún hafði klárlega einhver áhrif,“ sagði Guðmundur.

Gleðiefni að spila marga leiki

HK-ingar fengu góð færi í leiknum sem ekki tókst að nýta.

„Þeir eru góðir að færa boltann á milli kanta og þar af leiðandi náðu þeir að ýta okkur neðarlega. Þeir gerðu það í gegnum leikinn en við vörðumst vel. Þegar við unnum boltann þá sóttum við hratt á þá sem mér fannst ganga mjög vel.

Við stilltum upp í venjulega sókn þegar við vorum með boltann, spiluðum þá sundur og saman, og fengum okkar færi. Kannski vantar aðeins meira drápseðli að klára þessi færi og svona jafna leiki.“

Fyrirliði HK-inga er ánægður með þétt leikjaplan næstu daga.

„Maður fer í alla leiki til þess að vinna þá og markmiðið er alltaf að gera betur en í leiknum á undan. Það gekk ekki í dag en við ætlum okkur að vinna FH í næstu umferð. Við erum með stóran og góðan hóp og það eru menn tilbúnir á bekknum til þess að koma inn á.

Ég er góður og ef ég er góður eru fleiri góðir þannig að ég held að menn eigi frekar bara að horfa á þetta gleðiefni að fá svona marga leiki á stuttum tíma enda miklu skemmtilegra en endalausar æfingar,“ bætti Guðmundur við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert