„Sýnir að við erum með gott vopnabúr“

Matthías Vilhjálmsson nær einum af fjölmörgum sköllum sínum að marki …
Matthías Vilhjálmsson nær einum af fjölmörgum sköllum sínum að marki í leiknum í kvöld. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH, var ánægður með 5:1 sigur liðsins á ÍA í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Leikinn sagði hann þó hafa verið undarlegan auk þess sem hann vonast til þess að Skagamennirnir tveir sem meiddust illa í kvöld, Sindri Snær Magnússon og Árni Snær Ólafsson, jafni sig fljótt.

„Þetta var stórfurðulegur leikur sem bauð upp á mörg atvik, mörg leiðinleg atvik og ég vona að það verði hugsað vel um ÍA-strákana. Þetta leit ekki vel út en þetta er því miður hluti af fótboltanum. Það var stopp í 15 mínútur og allir í sjokki þannig að það tók smá tíma að hita vélina upp aftur. Um leið og við komumst í 2:1 var það erfitt fyrir Skagamenn, sérstaklega manni færri,“ sagði Matthías í samtali við mbl.is eftir leik.

Fyrirliðinn var sífellt ógnandi og átti fjölda marktilrauna, flestar með skalla, en Árni Snær sá við honum í fjölmörg skipti. Hann var því feginn þegar einn skallanna endaði loks í markinu og kom FH í 2:1 forystu.

„Já, það var kominn tími til að ég hitti ekki beint á markmanninn þannig að ég var mjög sáttur við það og góð stoðsending hjá Loga [Hirti Loga Valgarðssyni] líka. Það var mjög jákvætt fyrir okkur að fá marga á markalistann og sýnir að við erum með gott vopnabúr fram á við,“ sagði Matthías.

FH hefur verið manni fleiri frá því í fyrri hálfleik í öllum þremur leikjum deildarinnar til þessa, en ÍA missti Hákon Inga Jónsson af velli með rautt spjald eftir tæplega hálftíma leik í kvöld.

„Þetta hefur verið furðulegt. Við dæmum ekki leikinn en það sem ég heyri alla vega er að þetta hafi verið hárréttur dómur. En svona er þetta, þetta er fín sóknaræfing fyrir okkur, að drilla liðið í 11 á móti 10 og það gerðum við mun betur núna heldur en við gerðum á móti Val og vorum mun flinkari að skapa yfirtölu á köntunum og fylla teiginn og þá fær maður tækifæri,“ sagði hann.

FH er eftir þriðju umferðina í efsta sæti deildarinnar með 7 stig, jafnmörg og KA, Valur og Víkingur Reykjavík en með betri markatölu. Matthías sagði FH vitanlega ætla að taka þátt í toppbaráttunni á tímabilinu.

„Við ætlum alla vega að berjast þar. Leikirnir koma mjög þétt núna í maí og strax í næsta leik er mjög erfiður leikur inni í Kórnum á móti HK. Það verður hörkuleikur líka og við ætlum bara að halda áfram,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is