Fjölnir með fullt hús - tvö rauð spjöld í Ólafsvík

Hlynur Sævar Jónsson leikmaður Víkings í Ólafsvík fær rauða spjaldið …
Hlynur Sævar Jónsson leikmaður Víkings í Ólafsvík fær rauða spjaldið hjá Gunnari Oddi Hafliðasyni dómara í leiknum gegn Aftureldingu. Ljósmynd/Þorsteinn Ólafs

Fjölnir fer vel af stað í Lengjudeild karla í fótbolta en liðið lagði Gróttu á heimavelli, 1:0, í einvígi liðanna sem féllu úr efstu deild á síðustu leiktíð. Valdimar Ingi Jónsson skoraði sigurmark Fjölnis á 10. mínútu. Fjölnir er með sex stig eftir tvær umferðir en Grótta er með þrjú stig. 

Afturelding fór illa með Víking frá Ólafsvík á útivelli, 5:1. Rétt eins og í fyrsta leik Ólafsvíkinga gegn Fram voru þeir lentir þremur mörkum undir snemma leiks. Kristófer Óskar Óskarsson skoraði tvö mörk fyrir Aftureldingu á fyrstu átta mínútunum og Valgeir Árni Svansson bætti við þriðja markinu á 13. mínútu. 

Hlynur Sævar Jónsson minnkaði muninn fyrir Ólafsvíkinga á 17. mínútu en Kristófer Óskar fullkomnaði þrennuna á 28. mínútu og var staðan í hálfleik 4:1. Vont varð verra fyrir Víking þegar Emmanuel Keke fékk rautt spjald á 60. mínútu og stuttu síðar skoraði Kristófer Óskar sitt fjórða mark. Hlynur Sævar Jónsson fékk síðan annað rauða spjald Ólsara undir lokin. Afturelding er með fjögur stig eftir tvo leiki en Víkingur án stiga. 

Selfoss náði í sín fyrstu stig er liðið vann nýliðaslaginn við Kórdrengi á útivelli, 3:1. Kenan Turudija og Hrvoje Tokic komu Selfossi í 2:0 í fyrri hálfleik áður en Davíð Þór Ásbjörnsson minnkaði muninn á 75. mínútu. Tíu mínútum síðar fékk Arnleifur Hjörleifsson hins vegar rautt spjald og Tokic skoraði sitt annað mark stuttu síðar og þriðja mark Selfoss. Selfoss er með þrjú stig og Kórdrengir eitt. 

Dofri Snorrason og félagar í Fjölni eru með fullt hús …
Dofri Snorrason og félagar í Fjölni eru með fullt hús stiga. Hann býr sig undir að taka innkast í kvöld. mbl.is/Sigurður Ragnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert