„Hefði klárlega átt að enda 0:0“

Fjolla Shala í leik með Fylki árið 2010.
Fjolla Shala í leik með Fylki árið 2010. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjolla Shala spilaði sinn fyrsta leik fyrir Fylki í tæpan áratug þegar hún kom inn á sem varamaður í 0:1 tapi á útivelli gegn Val í þriðju umferð Pepsi Max-deildar kvenna í dag.

„Það er gott að vera komin heim. Þetta er fínt, þetta eru mjög ungar stelpur og ég er lang elst. Það er bara flott, það yngir mann aðeins upp,“ sagði Fjolla í samtali við mbl.is eftir leik, en hún gekk á dögunum aftur til liðs við Fylki eftir áratug hjá Breiðabliki.

Hún kom inn á í stöðu miðvarðar í þriggja manna varnarlínu Fylkis en hefur á ferli sínum oftast spilað sem djúpur miðjumaður. „Ég er lang öruggust djúp á miðju í „fæting“ en það er alveg sama, ég spila bara þar sem þjálfarinn setur mig. Ég klára það verkefni,“ sagði hún.

Spurð um hvað henni hafi þótt um leikinn sagði Fjolla: „Mér fannst leikurinn frekar jafn. Hann hefði klárlega átt að enda 0:0, það er svona rétt mynd af leiknum. Það voru engin klár dauðafæri og þetta var jafn leikur, baráttuleikur.“

Fylkir byrjaði tímabilið afleitlega, á 0:9 tapi gegn Breiðabliki. Spilamennska Fylkiskvenna í leiknum í dag var allt önnur og betri. Fjolla sagði liðið enda læra á svo stóru tapi.

„Já sá leikur fer í reynslubankann. Þetta er ungt lið og þær eru að læra á hverjum einasta leik. Ég held að næsti leikur verði bara hörkuleikur og við þurfum á þessum þremur stigum að halda í honum og byggja ofan á því,“ sagði hún, en Fylkir fær Keflavík í heimsókn í fjórðu umferð, í leik þar sem bæði lið stefna að sínum fyrsta sigri í sumar.

Hún horfir björtum augum á framhaldið. „Já alveg klárlega. Þetta er mjög spennandi lið og þess vegna kom ég, til þess að geta eitthvað hjálpað þessu liði. Ég þarf bara að rífa mig í gang og komast í form og hjálpa liðinu aðeins,“ sagði Fjolla að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert