„Hefði viljað fá mark í fyrstu sókn“

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta var kaflaskiptur leikur. Ég hefði viljað fá mark í fyrstu sókn, ef við hefðum haft trú á því. Eftir það bökkuðum við of mikið frá þeim og gáfum þeim alveg yfirhöndina í leiknum og það endaði með því að þær skora,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, sem tapaði 1:3 á útivelli gegn Selfyssingum í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu í dag.

„Þrátt fyrir að Selfoss hafi haft yfirhöndina þá eigum við þrjú dauðafæri í fyrri hálfleik og það stefnir í að verða dálítið verkefni hjá okkur að ná að skora. Það þarf ansi mikið til þess að við náum að skora mörk. Þau skipta verulega máli, eins og þú sást í dag, við hefðum getað verið tveimur eða þremur mörkum yfir í hálfleik,“ bætti Kristján við en Selfoss leiddi 1:0 í leikhléi.

„Við byrjuðum vel í seinni hálfleik og jöfnum, það var fínt og þá komst meira jafnvægi í leikinn. Og hann hékk alveg í jafnvægi þar til að við fengum tvö mörk á okkur á þremur mínútum. Leikurinn var í það miklu jafnvægi að maður vissi það að ef það kæmi mark þá myndi það skipta öllu máli fyrir framhaldið. Selfoss gerði miklu betur á þessum kafla heldur skoraði tvö mörk. Eftir það er leikurinn nánast farinn,“ sagði Kristján ennfremur.

Í kjölfarið gerði hann fjórfalda skiptingu, sem bar ekki árangur, þó að Stjörnukonur hefðu átt nokkrar álitlegar sóknir í lokin.

„Það var nauðsynlegt að koma með ferska fætur inn en við vildum líka hreyfa liðið. Það eru tveir leikir í viku og við þurfum að hugsa um allan pakkann og allt mótið þegar er verið að spila svona þétt,“ sagði Kristján sem missti meðal annars markvörðinn Chanté Sandiford meidda af velli í hálfleik.

„Það var ekkert að hrjá hana fyrir leik. Hún lenti í árekstri í fyrri hálfleiknum og fékk högg á vöðva og það hefur lamað einhverja taug. Ég held að það sé allt í lagi með hana, hún spilar á miðvikudaginn,“ sagði Kristján að lokum.

mbl.is