Síðast ætluðum við að skora í hverri sókn en vorum nú þolinmóðar

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir úr Breiðabliki.
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir úr Breiðabliki. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vorum þolinmóðar og loksins kom markið,  það tók reyndar ekki langan tíma að koma boltanum í markið því hann fór inn fyrir línuna þarna á sjöttu mínútu,“  sagði Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, sem átti góðan leik fyrir Breiðablik, sem lagði Þór/KA að velli í Kópavoginum í dag þegar síðustu leikir þriðju umferðar efstu deildar kvenna í knattspyrnu fóru fram. 

„Við vorum ekki sáttar við leikinn gegn ÍBV þegar við ætluðum að skora í hverri sókn sem við fengum en núna lögðum við upp með að vera þolinmóðar, ef þetta kom ekki á fyrstu tíu mínútunum eða fyrstu tuttugu ætluðum við bara að halda áfram. Þetta snýst um þetta – þolinmæði, búa til réttu færin og nýta þau.“

Tap fyrir ÍBV í síðasta leik situr greinilega aðeins í Blikum en það er samt ekkert að slá Blikakonur út af laginu. „Það var enginn pressa utan frá, við búum hana bara til sjálfar á okkur. Við ætlum bara að gera okkar og sjáum til hvernig það fer. Auðvitað ætlum við að vinna alla leiki, við vorum ekki sáttar við síðasta leik okkar svo það var gott að koma til baka og taka þennan,“ bætti Þórdís Hrönn við.

Tekur sinn tíma að ná yfirhöndinni

Vilhjálmur Kári Haraldsson þjálfari Blikakvenna segir ekkert gefið í kvennadeildinni. „Það er nú einhvern þannig að öll liðin í deildinni eru grimm og berjast svo það tekur sinn tíma að ná yfirhöndinni en við náðum smám saman að opna gestina og skapa okkur færi, þá kemur meira sjálfstraust og meiri kraftur í þetta hjá okkur.“

Sem kunnugt er skoruðu Blikakonur níu mörk gegn Fylki í fyrsta leik og töpuðu svo 2:4 fyrir ÍBV en þjálfarinn segir þurfa að hafa fyrir hlutunum. „Þetta hefur verið upp og niður hjá okkur, þessir þrír leikir í deildinni. Við þjálfararnir höfum sagt að deildin sé jafnari og öll liðin getu unnið hvort annað. Það er nú bara þannig svo það þarf að hafa mikið fyrir hlutunum og ekkert sjálfsagt í þessu. Margir af leikmönnum okkar hafa spilað hérna lengi en við fáum líka inn nýja. Það eru því ákveðnir hlutir sem slípast vel saman en aðrir sem við þurfum að vinna í næstu vikurnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert