„Fyrri hálfleikurinn hjá okkur var dapur og fyrsta hálftímann í seinni hálfleik fannst mér við líklegri til að jafna leikinn en svo þegar maður sækir stíft getur maður fengið mark í bakið og það gerðist, tvö stykki, svo þetta leit því verr út en leikurinn þróaðist en fyrri leikurinn var ekki góður af okkar hálfu,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Blika eftir 3:0 tap fyrir Víkingum í Víkinni í kvöld þegar leikið var í 4. umferð efstu deildar karla í fótbolta, Pepsi Max-deildarinnar.
„Mér fannst vanta orku, grimmd, ákveðni og áræðni. Við töpuðum öllum boltunum á miðjunni og um leið og það gerist tekst Víkingum að splundra okkur enda vorum við í eltingarleik stóran hluta fyrri hálfleiks. Þetta lagaðist aðeins þegar við breyttum úr þriggja manna vörn í fjögurra en skipulagið skipti ekki svo miklu máli því þegar þú ert skrefinu á eftir þá er aldrei von á neinu góðu.“
Blikum var spáð sigri í deildinni en hafa nú fengið 4 stig af 12 mögulegum. „Við viljum auðvitað vinna alla leiki, sem við spilum en við fáum nokkurn veginn það sem við eigum skilið. Spilamennska hefur ekki verið stöðug og við ekki náð stöðugum takti í leik liðsins og verðum nú bara að bera virðingu fyrir stöðunni í deildinni og reyna að gera betur í framhaldinu,“ bætti þjálfarinn við.
Höskuldur Gunnlaugsson byrjaði á bekknum hjá Blikum og þurfti að horfa á félaga sína á vellinum. „Mér fannst þetta ekki góð frammistaða af okkur hálfu og úrslitin enn verri svo þetta var brekka í dag. Ég held eins og allir aðrir, mér fannst Víkingar einhvern veginn orkumeiri og grimmari í öllum sínum aðgerðum, létu boltann ganga og spiluðu sinn leik vel. Að sama skapi vorum við langt frá okkar besta og ég held okkur hafi helst vantað orku, áræðni og grimmd til að sækja stig hér í kvöld.“
Höskuldur segir stöðu liðsins í deildinni ekki bjóða upp á neitt nema bæta sig. „Við erum auðvitað ekki sáttir við uppskeruna, það væri eitthvað skrýtið ef menn mættu í vinnuna á morgun og allir brosandi. Það þýðir ekkert að sveiflast eitthvað með því, menn verða bara að hafa kröftuga og góða æfingaviku, ná upp því sem var ábótavant í dag fyrir næsta leik.“