Frábært mark þótt ég segi sjálfur frá

Haukur Páll Sigurðsson öskrar á eftir Óskari Erni Haukssyni í …
Haukur Páll Sigurðsson öskrar á eftir Óskari Erni Haukssyni í Vesturbænum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Virkilega sætt að sækja sigur hingað enda mjög erfiður útivöllur að fara á,“ sagði Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, í samtali við mbl.is eftir 3:2-sigur liðsins gegn KR í úrvaldeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Meistaravöllum í Vesturbæ í 4. umferð deildarinnar í kvöld.

„KR er með frábært lið og þetta eru alltaf hörkuleikir þegar þessi tvö til mætast. Ég er þess vegna virkilega sáttur við stigin þrjú. Þetta var mjög kaflaskiptur leikur og mér fannst við ekki byrja þetta nægilega vel en við unnum okkur ágætlega inn í þetta eftir því sem leið á leikinn.

Við fórum að hreyfa boltann hraðar og tengja sendingarnar betur saman. Að sama skapi vorum við ekki að skapa okkur mikið af færum en við vorum að spila okkur í ágætistækifæri. Það var þess vegna virkilega sætt að jafna metin undir lok fyrri hálfleiks og gaf okkur mikið farandi inn í seinni hálfleikinn,“ sagði Haukur.

Kristinn Freyr Sigurðsson og Sigurður Egill Lárusson sækja að Kennie …
Kristinn Freyr Sigurðsson og Sigurður Egill Lárusson sækja að Kennie Chopart. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eiga leikmenn inni

Þetta er annar leikurinn í röð þar sem Valsmenn lenda undir en alltaf koma þeir sterkir til baka.

„Við erum ekki þekktir fyrir að gefast upp og svekkja okkur. Við höldum alltaf áfram og það er mikil seigla í liðinu. Reynslan er mikil og menn þekkja það alveg að þegar tvö hörkulið mætast þá þýðir ekkert að leggja árar í bát.

Það er gott jafnvægi í hópnum og við eigum enn þá eftir að fá inn menn af meiðslalistanum. Menn þekkjast mjög vel og tengingin á milli manna í hópnum er mjög góð sem er alltaf jákvætt og ánægjulegt.“

Haukur skoraði glæsilegt mark í kvöld en hann á von á jafnari úrvalsdeild en oft áður.

„Það er ekki oft sem maður skorar mörk því yfirleitt er það með skalla eða eftir klafs. Þetta var frábært mark þótt ég segi sjálfur frá. Gott skot og mjög sætt að sjá hann inni.

Mótið fer skemmtilega af stað og þetta eru allt erfiðir leikir. Það er enginn leikur gefins og þetta verður hörð barátta áfram,“ bætti Haukur við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert