KA á toppinn eftir stórsigur í Keflavík

KA-menn fagna í Keflavík í kvöld.
KA-menn fagna í Keflavík í kvöld. Ljósmynd/Hilmar/Víkurfréttir

Keflvíkingar tóku á móti KA nú í kvöld í 4. umferð Pepsi Max-deildar karla í fótbolta. Keflvíkingar að koma frá ansi slæmu tapi í síðustu umferð á meðan þeir tóku nokkuð öruggan sigur gegn Leikni. Lokatölur urðu 4:1, KA í vil.  

Leikurinn hófst afar rólega og lítið gerðist þangað til að á 16. mínútu að fyrsta skot kom að marki beggja liða. Það skot kom frá Ásgeiri Sigurgeirssyni KA-manni og söng í neti Keflvíkinga. Ástbjörn Þórðarson, Keflvíkingur, vildi taka þátt í þessu partý og aðeins 6 mínútum síðar lét hann vaða ekki ólíkt skot á mark KA með sama árangri og Ásgeir.   

En Keflvíkingar voru stutt í paradís því Ásgeir stangaði boltann í net Keflvíkinga aðeins 4 mínútum síðar. Þannig var staðan í hálfleik og bráðskemmtilegur seinni hálfleikur lofaði góðu fyrir framhaldið.

KA menn bættu svo bara í og skoruðu þriðja markið þegar Hallgrímur Steingrímsson skoraði á 62. mínútu. Það var svo Elfar Aðalsteinsson sem innsiglaði sigur KA með markið á 90. mínútu. Þar við sat og KA-menn tylla sér á topp deildarinnar. 

Sendu knöttinn í hyldýpi

Heilt yfir var sigur KA nokkuð sanngjarn þetta kvöldið. Keflvíkingar fóru afar illa með boltann og hvað eftir annað voru þeir að senda knöttinn í eitthvert hyldýpi þar sem enginn tók við. Annað stórtap þeirra Keflvíkinga í röð og ákveðið vonleysi virtist gera vart við sig þegar þriðja mark KA datt inn og augljóslega eitthvað sem þeir geta leyft sér. Þetta kvöldið spiluðu þeir bara ekki nægilega vel, á meðan KA var gríðarlega vel skipulagt í sínum aðgerðum.

Varnarleikur KA var í hæsta gæðaflokki og þar fór fremstur meðal jafninga Þorri Mar Þórisson sem spilaði óaðfinnanlega. Norðanmenn spiluðu feykilega vel og eru til alls líklegir í sumar ef þeir ná að halda slíkum gæðum áfram. Meira að segja spila þeir þessa dagana með lykilmenn í meiðslum en jákvætt var að sjá Elfar Árna Aðalsteinsson koma inn á og skora. Þessi úrslit setja KA menn í toppsætið sem fyrr segir og toppslagur því í næstu umferð á Dalvík. 

Keflavík 1:4 KA opna loka
90. mín. Elfar Árni Aðalsteinsson (KA) skorar Skyndisókn , Hallgrímur sendir á Elfar sem afgreiðir hann í mark lánlausra Keflvíkinga.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert