Kjartan Henry gæti spilað - Finnur klár slaginn

Kjartan Henry Finnbogason bíður niðurstöðu úr kórónuveiruprófi.
Kjartan Henry Finnbogason bíður niðurstöðu úr kórónuveiruprófi. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Finnur Tómas Pálmason, varnarmaður knattspyrnuliðs KR, er í leikmannahóp liðsins sem mætir Val í stórleik 4. umferðar úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Meistaravöllum í Vestubæ í kvöld.

Þetta staðfesti Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, í samtali við Vísi í dag Finnur mun leika með uppeldisfélagi sínu í sumar á láni frá Norrköping í Svíþjóð.

Hins vegar er óvíst hvort Kjartan Henry Finnbogason, nýjasti leikmaður liðsins, geti tekið þátt í leiknum þar sem hann bíður nú niðurstöðu úr kórónuveiruprófi.

„Finnur Tómas verður í hóp en ég veit ekki með Kjartan,“ sagði þjálfari KR-inga, Rúnar Kristinsson, í samtali við Vísi.

„Hann fer í seinna covid-prófið sitt í dag. Hann hefur verið sóttkví í fimm daga og við höfum ekki enn fengið svar og það veltur allt á því,“ bætti Rúnar við.

KR er með 4 stig í sjötta sæti Pepsi Max-deildarinnar eftir fyrstu þrjá leiki sína en liðið hefur aðeins unnið einn leik á tímabilinu til þessa, gegn Breiðablik á Kópavogsvelli í fyrstu umferð deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert