Seiglusigur Vals í Vesturbæ í frábærum leik

Það var hart tekist á í Vesturbænum í kvöld.
Það var hart tekist á í Vesturbænum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslandsmeistarar Vals unnu sinn þriðja leik í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, þegar liðið heimsótti KR á Meistaravelli í Vesturbæ í 4. umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með 3:2-sigri Valsmanna en KR-ingar mættu illa stemdir í síðari hálfleikinn og Valsarar gengu á lagið.

KR-ingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og Guðjón Baldvinsson kom Vesturbæingu yfir strax á 9. mínútu.

Kennie Chopart átti þá fyrirgjöf frá hægri á Pálma Rafn Pálmason sem reyndi að klippa boltann í netið.

Boltinn fór hins vegar í andlitið á Guðjóni og þaðan í gegnum klofið á Hannesi Þór Halldórssyni í marki Vals og staðan orðin 1:0.

Valsmenn jöfnuðu metin á 44. mínútu þegar Kaj Leo i Bartalsstovu átti frábæra hornspyrnu frá hægri.

Sebastian Hedlund stökk hæst í teignum og stangaði boltann í fjærhornið af nærsvæðinu og staðan því 2:2 í hálfleik.

Haukur Páll Sigurðsson kom Valsmönnum í upphafi síðari hálfleiks með þrumuskoti upp í samskeytin af D-boganum eftir laglegan undirbúning Kristins Freys Sigurðssonar.

Sex mínútum síðari bættu Valsmenn við þriðja marki sínu þegar Patrick Pedersen vann boltann á vallarhelmingi Valsmanna.

Hann sendi boltann á Kristinn Frey Sigurðsson sem fór fram hjá Finni Tómasi Pálmassyni og sendi fyrir markið á Sigurð Egil Lárusson sem gat lítið annað en skorað fyrir opnu marki.

KR-ingar minnkuðu muninn í 3:2-með marki úr vítaspyrnu á 69. mínútu eftir að Patrick Pedersen hafði tæklað Stefán Árna Geirsson innan teigs. Pálmi Rafn Pálmason steig á punktinn og skoraði af öryggi.

Valsmenn eru áfram í fjórða sæti deildarinnar en með 10 stig en KR-ingar eru í sjöunda sætinu með 4 stig.

Haukur Páll Sigurðsson og Pálmi Rafn Pálmason eigast við á …
Haukur Páll Sigurðsson og Pálmi Rafn Pálmason eigast við á Meistaravöllum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Meistarabragur á Valsmönnum

KR-ingar voru afar öflugir í fyrri hálfleik og uppskáru mark strax á níundu mínútu. Þeir leyfðu Valsmönnum að vera með boltann og vörðust mjög vel á eigin vallarhelmingi.

Þeir gáfu fá færi á sér og voru í raun með fulla stjórn á leiknum í fjörutíu mínútur en þá virtist allt í einu draga af liðinu og maður skynjaði ákveðna þreytu hjá leikmönnum liðsins.

Valsmenn gátu bókstaflega ekkert stærstan hluta fyrri hálfleiks og Sebastian Hedlund og Rasmus Christiansen áttu eflaust einhverjar 200 sendingar bara á milli sín í hálfleiknum.

Þeir fengu hins vegar hornspyrnu á 44. mínútu sem Hedlund skallaði í netið og það virtist gefa Valsmönnum miklu meira sjálfstraust því það var allt annað lið sem mætti til leiks í síðari hálfleiks.

Valsmenn skoruðu tvö mörk á sex mínútna kafla í upphafi síðari hálfleiks og fór það langleiðina með að ganga frá leiknum.

KR-ingar hljóta að vera svekktir með sjálfa sig eftir þessa byrjun á síðari hálfleik eftir mjög vel spilaðan fyrri hálfleik.

Valur er ekki lið sem þú vilt vera að elta, sérstaklega tveimur mörkum undir, en KR-ingar gerðu þó virkilega vel að setja pressu á Valsmenn á lokamínútum leiksins.

Að sama skapi má hrósa Valsmönnum fyrir góðan varnarleik undir restina og Hannes Þór Halldórsson á stóran þátt í sigrinum enda varði hann meistaralega frá Óskari Erni Haukssyni á lokamínútum leiksins.

Það er meistarabragur á Valsmönnum því smá mótbyr virðist ekki hafa nein áhrif á liðið. Þeir halda alltaf áfram, líkt og gegn HK þar sem þeir uppskáru sigurmark í uppbótartíma, og það virðist vera óbilandi trú í leikmannahópnum.

Á sama tíma hafa KR-ingar aðeins unnið einn sigur í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins sem er langt undir pari hjá liði sem þykist ætla að verða Íslandsmeistari.

Kjartan Henry Finnbogason kom hins vegar með mikinn kraft inn í KR-liðið og mun gefa liðinu mikið enda fæddur sigurvegari og baráttujaxl.

Þrátt fyrir þrjá sigra og eitt jafntefli verða Valsmenn að múra betur fyrir markið hjá sér því það gengure ekki að þurfa skora alltaf þrjú mörk í hverjum leik til að fagna sigri.

Það er hins vegar klárt mál að Íslandsmeistarar Vals eru það lið sem önnur lið þurfa að leggja að velli, ætli þau sér að verða meistarar.

KR 2:3 Valur opna loka
90. mín. +6 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert