Gamla ljósmyndin: Valin fram yfir Mörtu

Morgunblaðið/Brynjar Gauti

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Ásthildur Helgadóttir var ein þeirra sem ruddu brautina fyrir íslenskar konur í atvinnumennsku erlendis í knattspyrnu. 

Á myndinni sést Ásthildur skalla knöttinn í netið hjá Spánverjum eftir fyrirgjöf frá Rósu Júlíu Steinþórsdóttur og innsigla 3:0 sigur Íslands á Laugardalsvellinum hinn 30. maí 2002. Erla Hendriksdóttir reyndi einnig að ná til boltans og Guðlaug Jónsdóttir fylgist með gangi mála. 

Sigurinn gegn Spáni var mikilvægur en íslenska liðið var í harðri baráttu um að komast í lokakeppni HM í Kína 2003. Ísland hafnaði í 2. sæti í sínum riðli í undankeppninni á eftir Rússlandi. Ísland fór í umspil gegn Englandi um sæti á HM en tapaði þar 3:2 samtals. 

Myndina tók Brynjar Gauti sem lengi myndaði fyrir mbl.is og Morgunblaðið. Birtist hún í blaðinu daginn eftir, eða 31. maí 2002. 

Ásthildur er almennt talin ein allra besta knattspyrnukona sem fram hefur komið á Íslandi og var á meðal bestu leikmanna á Norðurlöndunum. 

Árið 2006 var hún tilnefnd sem besti sóknarmaðurinn í Svíþjóð á lokahófi sænska knattspyrnusambandsins. Einnig voru tilnefndar þær Lotta Schelin sem varð fyrir valinu og Victoria Svensson. Í kjörinu var Ásthildur tekin fram fyrir Mörtu frá Brasilíu en í lok árs 2006 var Martha valin leikmaður ársins hjá FIFA. Sænska deildin var geysilega sterk á þessum tíma. Schelin skoraði 21 mark fyrir Kopparbergs/Göteborg í deildinni, Marta skoraði 20 fyrir meistaraliðið Umeå og Ásthildur 19 mörk fyrir Malmö. 

Ásthildur lagði skóna á hilluna eftir keppnistímabilið 2007 og var þá einungis 31 árs gömul en hafði reyndar leikið í meistaraflokki í sextán ár því hennar fyrsta tímabil í efstu deild með Breiðabliki var sumarið 1991. Hnémeiðsli urðu þess valdandi að Ásthildur lét staðar numið en hún hafði þremur árum áður slitið krossband og brjóskskemmdir gerðu henni erfitt fyrir samkvæmt því sem Morgunblaðið hafði eftir henni í nóvember 2007. 

Íslenska landsliðið komst í fyrsta skipti í lokakeppni stórmóts árið 2009. Ásthildur náði að leggja sitt af mörkum í fyrri hluta þeirrar undankeppni því hún lék þrjá leiki árið 2007, þar á meðal í sigurleik gegn firnasterku liði Frakklands á Laugardalsvelli. 

Ásthildur lék með Breiðabliki, KR og ÍBV hér heima en erlendis með Malmö í Svíþjóð í fimm ár. Hún lék 69 A-landsleiki og skoraði 23 mörk. Varð hún margfaldur Íslandsmeistari og bikarmeistari með Breiðabliki og KR. Í íslensku úrvalsdeildinni skoraði hún 134 mörk í 152 leikjum og er níundi markahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi þó hún hafi leikið nokkur ár í Svíþjóð. Í sænsku deildinni skoraði hún 46 mörk í 58 leikjum.

Ásthildur Helgadóttir hafnaði tvívegis í 3. sæti í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins 2003 og 2005 og var fjórum sinnum á meðal tíu efstu í kjörinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert