Ekkert leyndarmál að við liggjum aftur

Guðni Þór Einarsson eftir leikinn í kvöld.
Guðni Þór Einarsson eftir leikinn í kvöld. mbl.is/Sæþór Már

„Þetta er ofboðslega súrt, ég veit eiginlega ekki hvað gerðist þarna í lokinn. Þetta er bara gríðarlega svekkjandi, mér fannst við alveg hafa leikinn undir stjórn, stig hefði verið sanngjarnt að lágmarki,“ sagði Guðni Þór Einarsson þjálfari Tindastóls eftir 1:2 tap gegn Þór/KA á Sauðárkróki í kvöld.

Einhverjir voru að tala um rangstöðu í öðru marki Þór/KA en Guðni gaf ekki fyrir það.
„Ég treysti dómaranum fullkomlega, hann hlýtur að hafa séð þetta vel, en ég á eftir að sjá þetta betur, en ef dómarinn hefur metið það svoleiðis, þá tökum við því bara.

Við höfum farið bara ágætlega af stað á tímabilinu, það er ekkert leyndamál að við liggjum aftur og beitum öflugum skyndisóknum, við verðum þó að bæta okkar leik í því að halda bolta betur innan liðs. Leikplanið að okkar mati gekk bara upp, en það sem skilur á milli Lengjudeildarinnar og Pepsi deildarinnar er að góð lið refsa.“

Næsti leikur Tindastóls í deildinni er á móti Val á heimavelli. Guðni var spurður að því hvernig hann ætlar að leggja þann leik upp. „Við ætlum bara að halda áfram að byggja okkar leik, Valur er náttúrulega gríðarlega sterkt lið og við hlökkum bara til að taka á móti þeim. Við höfum fulla trú á því að við getum náð góðum úrslitum á móti þeim á heimavelli,“ sagði Guðni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert