Hjörtur sló markametið

Hjörtur Júlíus Hjartarson í leik með Skagamönnum en hann lék …
Hjörtur Júlíus Hjartarson í leik með Skagamönnum en hann lék síðast með þeim tímabilið 2014. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjörtur Hjartarson varð í kvöld markahæsti leikmaðurinn í sögu Íslandsmóts karla í knattspyrnu þegar hann skoraði fimm mörk í leik í 4. deildarkeppninni.

Hjörtur leikur með SR, sem er nokkurs konar varalið Þróttar í Reykjavík, og það vann stórsigur á Gullfálkanum, 7:1, í 4. deildinni í Laugardalnum í kvöld. Hjörtur sló metið með því að skora í uppbótartíma fyrri hálfleiks og hann bætti við fjórum mörkum í seinni hálfleiknum.

Þar með hefur Hjörtur skorað 222 mörk á aldarfjórðungsferli í deildakeppninni en hann lék fyrst með Skallagrími í C-deildinni árið 1994.

Hann skoraði 47 mörk í efstu deild, þar af 32 fyrir Skagamenn, 10 fyrir Þrótt og 5 fyrir Skallagrím, en Hjörtur varð markakóngur úrvalsdeildarinnar árið 2001 með 15 mörk fyrir Íslandsmeistaralið ÍA.

Í 1. deild hefur Hjörtur skorað 111 mörk fyrir Skallagrím, Völsung, Selfoss, Þrótt, ÍA og Víking R.

Í 2. deild hefur hann skorað 11 mörk fyrir Skallagrím og nú eru mörkin í 4. deild orðin 53 talsins fyrir Augnablik, Kórdrengi og SR.

Hjörtur jafnaði markametið í deildakeppninni í síðustu viku þegar hann skoraði sitt 217. mark en það kom einmitt gegn Skallagrími í fyrstu umferð 4. deildarinnar í vor. Vilberg Jónasson, sem lengst af lék með Leikni á Fáskrúðsfirði og skoraði 217 mörk, átti markametið frá árinu 2012.

mbl.is