Gamla ljósmyndin: Sandgrasið

Morgunblaðið/Kristján G. Arngrímsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Valur og KA eru í toppbaráttunni á Íslandsmótin karla í knattspyrnu um þessar mundir. Eftir sex umferðir eru Íslandsmeistararnir í Val á toppnum í Pepsí Max deildinni undir stjórn Heimis Guðjónssonar og KA er í 3. sæti undir stjórn Arnars Grétarssonar. 

Á meðfylgjandi mynd eigast þeir Arnar og Heimir við fyrir þrjátíu árum síðan í 6. umferð efstu deildar Íslandsmóts karla í knattspyrnu sem þá hét Samskipadeildin. Arnar með Breiðabliki og Heimir með KR en báðir voru þeir miðtengiliðir og stjórnuðu spilinu vel. 

Breiðablik og KR voru taplaus eftir sex umferðir en liðin gerðu 1:1 jafntefli í leiknum. Engar voru þá samkomutakmarkanir og sóttu 1.944 manns leikinn. Svo fór að Víkingur varð Íslandsmeistari nokkuð óvænt en liðinu stýrði Logi Ólafsson sem nú er við stjórnvölinn hjá FH sem er í 4. sæti deildarinnar. 

Breiðablik þurfti að leika fyrstu sex heimaleiki sína þetta sumar á nýjum gervigrasvelli í Kópavogsdal, en hann var á þeim slóðum sem Smárinn og knatthúsið Fífan standa nú. Ástæðan var sú að Kópavogsvöllur var endurbyggður og var ekki tilbúinn til notkunar fyrr en í ágúst.

Grasið var reyndar kallað Sandgrasið í grein Loga Bergmanns Eiðssonar um leikinn í Morgunblaðinu 26. júní 1991, enda gekk það ávallt undir því nafni af þeirri ástæðu að það var af nýrri gerð slíkra leikvanga þar sem mikið af sandi var ofan í „grassverðinum.“

Gaf Logi Arnari Grétarssyni MM fyrir frammistöðuna í leiknum og Heimi Guðjónssyni M í einkunnagjöf blaðsins. Logi starfar einnig í dag hjá miðlum Árvakurs. 

Myndina tók Kristján G. Arngrímsson sem myndaði fyrir Morgunblaðið um tíma og birtist hún í blaðinu 26. júní 1991. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert