Fyrsti deildarleikurinn í tæpt ár

Fanndís Friðriksdóttir smellir kossi á Eyjólf Héðinsson eftir 5:0 sigur …
Fanndís Friðriksdóttir smellir kossi á Eyjólf Héðinsson eftir 5:0 sigur Vals á Tindastóli á Sauðárkróki í dag. mbl.is/Jóhann Helgi Sigmarsson

Fanndís Friðriksdóttir sneri aftur á knattspyrnuvöllinn síðastliðinn þriðjudag þegar hún byrjaði og skoraði í 7:0-sigri Vals gegn Völsungi í Mjólkurbikarnum. Í dag kom hún svo inn á sem varamaður í 5:0-sigri Vals gegn Tindastóli og spilaði þar með sinn fyrsta deildarleik í tæpt ár.

Fanndís hefur verið frá keppni frá því í lok júní á síðasta ári vegna barnsburðar.

Eignaðist hún stúlku ásamt kærasta sínum, Eyjólfi Héðinssyni, knattspyrnumanni hjá Stjörnunni, í byrjun febrúar og hóf skömmu síðar æfingar að nýju með Val.

Í dag kom Fanndís inn á í stöðunni 2:0 á 77. mínútu, og skoruðu Valskonur þrjú mörk til viðbótar eftir að hún kom inn á fyrir Elísu Viðarsdóttur, fyrirliða liðsins.

Fanndís er 31 árs gömul og á 109 A-landsleiki fyrir Íslands hönd að baki, þar sem hún hefur skorað 17 mörk.

Hún hefur þá skorað 107 mörk í 205 leikjum í efstu deild á Íslandi, ásamt því að hafa leikið sem atvinnumaður í Noregi, Frakklandi og Ástralíu.

mbl.is