Þetta er rosalega stórt fyrir mig

Birkir Bjarnason fagnar Brynjari Inga Bjarnasyni eftir að hann kom …
Birkir Bjarnason fagnar Brynjari Inga Bjarnasyni eftir að hann kom Íslandi yfir gegn Pólverjum í Poznan í dag. AFP

Brynjar Ingi Bjarnason miðvörður úr KA hefur slegið í gegn með íslenska landsliðinu í knattspyrnu í vináttulandsleikjunum þremur og hann kórónaði frammistöðu sína með því að skora glæsilegt mark í jafnteflisleiknum, 2:2, gegn Pólverjum í Poznan í dag.

„Ég sá boltann mjög seint. Ég vil meina að það hafi verið smá heppni í snertingunni. En það var mögnuð tilfinning að sjá hann svo í netinu," sagði Brynjar Ingi í viðtali sem Ómar Smárason hjá KSÍ tók fyrir RÚV eftir leikinn í dag.

Brynjar er 21 árs gamall og hafði aldrei verið valinn í landslið í neinum aldursflokki áður en hann var tekinn inn í A-landsliðshópinn fyrir leikina þrjá gegn Mexíkó, Færeyjum og Póllandi, en hann var í byrjunarliðinu í öllum þremur.

„Þetta er bara rosalega stórt fyrir mig. Þetta er stór gluggi fyrir mig að sýna hvað ég get gert og hverju ég vil áorka. Þetta var góður auglýsingagluggi fyrir mig og mér finnst ég vera að stíga þetta skref mjög vel,“ sagði Brynjar Ingi en viðtalið í heild má sjá hér.

mbl.is